Skansar í Vestmannaeyjum

Norðan við Klifið er stórgrýtisurð, sem kölluð er Skansar. Munnmæli herma, að þarna hafi fyrrum verið grösugar hlíðar, hagar fyrir kýr, sem reknar voru þangað til beitar. Nú er svæðið hins vegar mjög illt yfirferðar og fátt sem bendir til þess, að þar hafi grasmiklir hagar gagnast nautgripum Eyjamanna. Urðin geymir hins vegar örlög tveggja manna, sem enduðu þarna ævi sína. Annar var danskur, Johann Julius Brick, en hann setti á stofn verslun um miðja 19. öldina, Tangann, sem lifði langt fram á þá 20. og er nafnið ennþá tamt núlifandi Eyjamönnum. Johann þessi mun lítið hafa sinnt verslun sinni, gekk einn veðurdag árið 1851 með púðurtunnu út að Skönsum og sprengdi sjálfan sig í loft upp. Varð síðar vart við hann á Tanganum. Hinn maðurinn, sem lét lífið á þessum slóðum, hét Jón Pétursson yngri. Hann hrapaði til bana í Klifinu 1878. Jón lét líka vita af sér, og þess er getið, að líkamsleifar beggja hafi dreifst víða um Skansana.

Skildu eftir svar