Minnisvarði um Jón píslarvott í Vestmannaeyjum

Á nýja hrauninu frá Heimaeyjargosinu 1973 er minnisvarði um séra Jón Þorsteinsson, sem nefndur hefur verið píslarvottur eftir að hann var höggvinn til bana í Tyrkjaráninu 1627. Jón var prestur á Kirkjubæ og hafði falið sig í helli fyrir austan bæinn ásamt konu sinni, börnum og fleira fólki. Þar var hann veginn, en fjölskylda hans flutt til Algeirsborgar og seld þar í ánauð. Grafreitur Jóns gleymdist í aldanna rás, en legsteinn, sem reyndist vera frá gröf hans, fannst fyrir tilviljun 1924, er matjurtagarður var plægður í Kirkjubæjahverfinu. Fáum árum eftir þennan fund var afhjúpaður minnisvarði á þessu svæði, sem var eftirlíking af steininum og steingarður reistur umhverfis hann. Nærri hálfri öld síðar var minnisvarðanum um séra Jón Þorsteinsson bjargað á seinustu stundu undan glóandi hrauninu frá gosinu 1973. Var steininum komið fyrir nokkrum árum síðar árið 1978 uppi á nýja hrauninu, nokkurn veginn þar sem hann hafði áður staðið yfir moldum séra Jóns, nema hundrað metrum ofar! Sjá einnig færsluna Kirkjubær.

Skildu eftir svar