Kirkjubæir í Vestmannaeyjum

Kirkjustaður

Kirkjubæir voru þyrping bæja austur á Heimaey. Frá fornu fari var eyjunni skipt upp í 48 jarðir og fylgdi hverri jörð jarðnæði á Heimaey og ákveðinn nýtingarréttur í úteyjum, s.s. grasbeit, fuglaveiðar og eggjataka. Á Kirkjubæjum voru 8 jarðir og fylgdi þeim réttur til að nýta hlunnindi í Ystakletti og í fleiri úteyjum. Bæirnir voru forn kirkjustaður og báru nafn sitt af þeirri staðreynd. Nikulásarkirkju á Kirkjubæ er getið í máldaga frá 1269, en kirkjusóknir voru tvær í Eyjum og var hin suður á Heimaey að Ofanleiti. 

Tyrkjaránið 1627

Séra Jón Þorsteinsson er eflaust þekktastur presta á Kirkjubæjum, en hann var fæddur 1570 og varð prestur þar árið 1608. Nafn séra Jóns lifir með Tyrkjaráninu 1627, en þá var hann veginn af þeim illvirkjum, sem fóru ránshendi um Heimaey og skildu við samfélagið þar í rjúkandi rúst. Prestur leitaði skjóls í helli fyrir austan bæina ásamt fjölskyldu sinni og var höggvinn þar. Eiginkonan og ung börn hjónanna voru flutt út í skip ræningjanna og seld síðar í ánauð á markaðstorgi Algeirsborgar í Norður- Afríku. Séra Jón fékk viðurnefnið píslarvottur í kjölfar örlaga sinna og hefur verið jarðsettur í grafreit á Kirkjubæjum því u.þ.b. þremur öldum síðar, árið 1924,  fannst legsteinn hans á staðnum. Var steinninn þá löngu gleymdur en kom í dagsljósið, þegar verið var að pæla kálgarð þar austur frá. Fór legsteinninn á Þjóðminjasafnið, en eftirmynd af honum var  komið fyrir sem minnisvarða á Kirkjubæjum. Í Heimaeyjargosinu 1973 var honum bjargað á síðustu stundu undan gjalli og glóandi hrauninu og síðar komið fyrir hátt uppi í hlíð Eldfells gegnt kaupstaðnum.

Sálma- og kvæðaskáld

Nafn séra Jóns Þorsteinssonar hefur síður lifað í tengslum við skáldskap, en hann samdi bæði sálma og kvæði eftir að hann settist að í Eyjum. Á meðal sálma Jóns eru 130 Davíðssálmar og 50 Genesissálmar, sem gefnir voru nokkrum sinnum út á Hólum seinni hluta 17. aldar og fram á miðja 18. öld. Þá samdi Jón fjölda annarra sálma, andleg ljóð og kvæði, sem urðu þjóðareign og voru lofuð á sínum tíma fyrir andagift og trúarhita. Kvæði Jóns eru einnig söguleg heimild um atburði í Eyjum, s.s. 41 erinda bálkur um rán John Gentelman árið 1614, þegar fjöldi ribbalda gekk á land á Heimaey, dvaldi þar í 28 daga, lét dólgslega og hirti eigur eyjaskeggja, kvikfé, matvæli og dýrgripi m.a. Í Landakirkju. “Enginn galt á lífi né æru sinni”, segir þó í einu erindanna, sem eflaust varð til þess, að þessi atburður lifði skemur í hugum eyjaskeggja en hryllingur Tyrkjaránsins 13 árum seinna.

Endalokin

Kirkjubæir hurfu á fyrstu dögum gossins 1973 enda upphaf þess nánast í túnfæti þeirra. Aska og gjall hlóðust fljótlega upp og settu mikið farg á bæina, í sumum kviknaði og þeir féllu saman. Í dag er erfitt að geta sér til um, hvar Kirkjubæirnir hafa verið, þegar farið er um tugum metra ofar á nýja hrauninu. Náttúruöflin sáu um að eyða þessum aldagamla kirkjustað og því mannlífi sem þar þreifst.

Skildu eftir svar