Aðalstræti 12 í Reykjavík

 

Vettvangur Innréttinganna

Fyrir 1764 voru Innréttingarnar með starfsemi í torfhúsum sem m.a. stóðu á lóðinni við Aðalstræti 12. Árið 1764 byggði félagið timburhús á lóðinni undir vefnaðarstofur fyrirtækisins en það hús var rifið í kringum 1810. Lóðin stóð lengi auð en í kringum 1889 var reist þar tvílyft timburhús á steinkjallara sem lengst af var nýtt undir verslunarrekstur.  Augusta Svendsen eignaðist húsið árið 1901 og rak hér hannyrða- og vefnaðarvöruverlsun en hún er talin fyrsta konan til að hefja verslunarrekstur í Reykjavík. Silli og Valdi keyptu húsið árið 1942 undir verslunarrekstur en húsið brann á nýársdag 1977.

Heimili fyrsta forsetans

Það hús sem nú stendur á lóðinni Aðalstræti 12 stóð áður við Austurstræti 8 og var kallað Ísafold. Björn Jónsson, ritstjóri, byggði húsið 1886 og þar var Ísafoldarprentsmiðjan fyrst til húsa sem og bókabúð Ísafoldar. Í þessu húsi ólst upp sonur Björns, Sveinn, fyrsti forseti lýðveldisins. Árið 1999 var húsið flutt hingað í Aðalstræti. Því hefur verið haldið fram að Ísafold hafi verið fyrsta raflýsta hús landsins.

 

Skildu eftir svar