Aðalstræti 16 í Reykjavík

Lóskurðarstofa Innréttinganna og hús landfógeta

Hér (miðjuhúsið) stendur eitt af elstu húsunum í Reykjavík og er elsti hluti þess frá árinu 1762. Eins og með svo mörg gömul hús við Aðalstræti þá má rekja sögu hússins til Innréttinganna og hér var lóskurðarstofa félagsins. Árið 1796 keypti danska stjórnin húsið undir landfógeta og var húsið bæði nýtt sem skrifstofa embættisins og íbúðarhúsnæði fógeta.

Fyrsti barnaskólinn

Um 1830 var fyrsti barnaskólinn í Reykjavík stofnaður í húsinu og var hann starfræktur til ársins 1848. Þá keypti Jón Guðmundsson, alþingismaður og ritstjóri Þjóðólfs húsið og bjó hann í húsinu til æviloka 1875.

Hans Andersen klæðskeri

Árið 1899 keypti Hans Andersen klæðskeri húsið, stækkaði það og rak þar klæðskeraverslun sína. Hann og fjölskylda hans bjuggu í húsinu í nær 70 ár.

Vagga knattspyrnufélagsins Fram

Árið 1908 var knattspyrnufélagið Fram stofnað í húsinu.

Fornleifafundur

Þegar fasteignafélagið Þyrping reisti Hótel Reykjavik Centrum á reitnum Aðalstræti 14-18 og Túngötu 2-4 árið 2005 þá runnu þessar lóðir saman sem Aðalstræti 16. Við fornleifarannsóknir sem gerðar voru í tengslum við þessar framkvæmdir árið 2001 fannst landsnámsskáli sem er til sýnis almenningi í kjallara hótelsins.

 

Skildu eftir svar