Arnarholt í Vestmannaeyjum
Athafnamaður og skáld
Arnarholt við Vestmannabraut 24 var heimili og vinnustaður Sigurðar Sigurðssonar, sem kenndur var síðan við húsið, en stórar viðbyggingar setja svip sinn á það í dag. Sigurður var fæddur í Kaupmannahöfn 15. september 1879, lærði lyfjafræði og gerðist lyfsali í Vestmannaeyjum á árabilinu 1913-1931. Hann var athafnasamur í meira lagi fyrir utan lyfsölu sína, beitti sér í ræðu og riti fyrir fjölda félags- og þjóðþrifamála í Eyjum s.s. stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja, slökkvisveitar og ekknasjóðs, kaupum á björgunarskipinu Þór og fl. Hugur Sigurðar flaug víðar því hann var ekki síður kröftugur við íslenska tungu. Hann gaf út nokkrar ljóðabækur og var þekktur í Eyjum af þessari iðju sinni sem skáldið frá Arnarholti eða sem Sigurður „slembir“. Hans þekktasta ljóð er Í dag sem er mikið sungið sem einsöngur við lag Sigfúsar Halldórssonar. Sigurður lést í Reykjavík 4. ágúst 1939.
Apótekið
Sigurður „slembir“ rak lyfjaverslun á jarðhæð húss síns, sem snéri að Vestmannabrautinni. Eftir að hann flutti úr bænum í byrjun 4. áratugar var lyfjaverslun áfram á sama stað fram eftir öldinni þar til Heimaeyjargosið hófst 1973. Hinum megin götunnar var helsta samkomuhús bæjarins, fyrst Gúttó og síðar Samkomuhús Vestmannaeyja, „Höllin“, þar sem bæjarbúar sóttu sér skemmtanir, einkum kvikmyndasýningar og dansleiki. Stöðugur straumur fólks átti þarna leið framhjá lyfjaversluninni, apótekinu, einkum á tyllidögum, þegar bíósýningar drógu til sín unga sem aldna. Unga kynslóðin kom gjarnan við í apótekinu, og keypti svokallaðan apótekalakkrís, harða lakkrísstöng, sem vafin var í þunnan pappír, og sogin af ákefð meðan horft var þann töfraheim, sem birtist henni á sýningartjaldinu í bíó.
Gos og gas
Í Heimaeyjargosinu lagðist á tímabili lyktarlaust, ósýnilegt, banvænt gas yfir hluta bæjarins, einkum neðri hluta hans og urðu kjallarar húsa sérstaklega hættulegir mönnum sem dýrum. Margir áttuðu sig illa á þessum lævísa vágesti, sem læddist að þeim, og gat í einni svipan svipt þá andanum, ráði og rænu. Þau urðu örlög manns, sem kafnaði sumarið 1973 í kjallara apóteksins, en hann var sá eini sem lést með óyggjand hætti af afleiðingum Heimaeyjargossins.