Bæjarbryggjan í Vestmannaeyjum
Bæjarbryggjan er eitt elsta hafnarmannvirkið í Eyjum, sem uppistandandi er, enbryggjan var byggð á því svæði, þar sem sjósókn árabátaútgerðar hafði staðið yfir um aldir, við svokallaðan Læk og Hrófin. Fyrsti hluti bryggjunnar er frá 1907, hún var stækkuð 1911, og 1925 fékk hún það lag og stærð, sem hún hefur enn í dag. Er bryggjan í raun það eina á þessu mikla athafnasvæði, sem ekki hefur verið síðan umbreytt og umbylt. Bæjarbryggjan var byggð á Stokkhellu, fyrrum uppsetri árabáta, og er bryggjan hluti af þeirri byltingu, sem varð í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Eftir margra alda árabátaútgerð, þegar sjómenn og landfólk höfðu kynslóð fram af kynslóð klöngrast um klappir, aur og sanda með báta sína, veiðarfæri og sjávarfang boðaði gerð Bæjarbryggjunnar breytta tíma. Nú varð fiskdrátturinn í land auðveldari, þegar unnt var að sigla að bryggjusporði, fleygja fiski og veiðarfærum upp á bryggju og flytja þaðan í aðgerðarhús. Vélbátaútgerð var u.þ.b. að ganga í garð með stórauknum aflabrögðum, og klappir, klettar og grjóthellur véku smátt og smátt fyrir manngerðum bryggjum. Bæjarbryggjan varð miðstöð iðandi sjávarútvegs í Vestmannaeyjum, þar sem bátum, fiskikösum, handvögnum og mannfólki ægði saman á vertíðum fyrstu áratuga 20. aldar. Þá var líf og fjör í Eyjum!