Básaskersbryggja í Vestmannaeyjum

Við komu til Eyja stíga flestir fyrst niður fæti á Básaskersbryggju, þar sem farþegaskipið Herjólfur leggst að, mörgum sinnum á dag eftir að höfn var gerð í Landeyjum.  Í marga áratugi hefur þessi bryggja verið áfangastaður stærri flutningaskipa, sem fram að gerð hennar urðu að liggja við festar úti á höfninni. Með tilurð bryggjunnar lögðust af vöruflutningar, s.s. á kolum, timbri og salti, á uppskipunarbátum milli skipa og lands. Þá höfðu flutningar á mannfólki þurft að hlíta sömu lögmálum. Básaskersbryggja var byggð á 13 árum, en bryggjugerð hófst árið 1929, þegar tekist hafði að hemja öldur Atlantshafsins með gerð hafnargarðannaBæjarbryggjan var þegar til staðar nær hafnarminninu og þjónaði aukinni vélbátaútgerð í Eyjum sem og Edinborgarbryggja Gísla J. Johnsen enn austar.  Þá voru minni bryggjustubbar sem teygðu sig á nokkrum stöðum út í höfnina svo sem Tangabryggjan, en hún varð austasti hluti hinnar nýju bryggju.  Básaskersbryggju var valinn staður innar og vestar í höfninni, á svokölluðum Básum, skerjum norður af Skildingafjöru.  Hún var talin eitt mesta bryggjumannvirki á landinu, þegar gerð hennar lauk árið 1942.

Á árabilinu 1935- 1937 var unnið við að dýpka höfnina og dæla upp sandi vestan við hina nýja Básaskersbryggju. Kom þá í ljós þúst á sjávarbotninum, sem kom smám saman upp á yfirborðið við dælinguna. Reyndist vera um trjábúta að ræða úr skipsflaki, sem legið hafði þarna frá árinu 1711. Hafði danskt kaupskip losnað í aftakaveðri af festum við Skansinn og hrakist upp í Básasker, þar sem það hlaut vota gröf í u.þ.b. 225 ár.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar