Betania í Vestmannaeyjum
Betania, kirkja aðventista, stendur við Brekastíg 17. Kirkjan var byggð árið 1925, en þá hafði söfnuður aðventista verið formlega stofnaður ári áður. Norskur trúboði, O.J.Olsen, hafði komið til Eyja 1922 og boðskapur hans náð fljótt eyrum margra Eyjamanna. Settu þessir lærisveinar Olsens fljótlega af stað atvinnustarfsemi í Eyjum, nuddsofu og baðhús við Bárustíg, sem rekið var í marga áratugi og mikið sótt, m.a. af vertíðarfólki. Þá byggðu þeir kirkjuna á mettíma, gerðu hana fokhelda á aðeins 6 dögum og tóku síðar í notkun skuldlausa. Söfnuðurinn hafði fleiri rekstraráform á prjónunum.
*
Árið 1928 stofnuðu aðventistar barnaskóla í kirkjunni og byggðu síðar við hana skólastofu. Skólinn var mjög vinsæll og starfaði samfleytt til ársins 1978, en eftir það var húsnæði hans nýtt fyrir leikskóla og skóladagheimili. Alls kyns félagsstarfsemi þreifst innan safnaðarins, líknarfélag og ungmennafélag, byggður var bústaður vestur í hrauni við Ofanleitishamar, þar sem safnaðarmeðlimir, fullorðnir og börn, brugðu gjarnan á leik á góðviðris- og frídögum. Söfnuður aðventista er enn starfandi í Eyjum, þótt minna fari fyrir starfsemi hans nú en áður.