Bræðsluskúrarnir í Vestmannaeyjum

Fyrir aldamótin 1900 voru bræðslu- og lýsishús við verslanirnar í Eyjum, Godthaabsverslunina, Garðsverslunina og Júlíushaab eða Tangann. Var grútur bræddur í bræðslupottum og lýsið geymt og látið setjast til í lifrarkörum áður en það var látið í tunnur til útflutnings. Svæðin í grennd við tvær fyrrnefndar verslanir eru horfin undir hraun en Tangasvæðið, sem var vestast, er enn til mikið breytt. Á því svæði voru lifrar- eða grútarbræðslur, þar sem lifrin var brædd a.m.k. á fyrstu áratugum 20. aldar. Tangabrasið svokallað stóð í nokkuð stóru húsi í grennd við núverandi Kiwanishús, en lifrarbræðsluskúrar voru fleiri þarna í nágrenninu. Skúrar þessir voru iðulega óhrjálegir og óþrifalegir í eigu ákveðinna útgerðarmanna og varð afurðin, lýsið, til við suðu í kerjum. Lagði þá mikla lýsisbrækju og grútarfnyk yfir nánasta nágrenni kofanna, en eldri konur sáu oft um bræðsluna og þurftu að vaka yfir suðunni daga og nætur.

*

Í ævisögu sinni, Í verum, segir Theodór Friðriksson frá því er hann flutti lifrina á handvagni frá aðgerðarhúsunum vestur Strandveginn, í Brasið, lifrarbræðsluskúr útgerðarmannsins, á 3. áratugi seinustu aldar. Oft var krapaelgur á leiðinni á forugum veginum, þannig að handvagninn sökk upp að öxli, og varð ekki haggað. Kom sér þá vel, að mikill fjöldi annarra vagna fór um í sömu erindagjörðum, og menn hjálpuðust að til þess að ýta hver á eftir öðrum.

Árið 1932 var þessari skúrabræðslu hætt, þegar útgerðarmenn sameinuðust um stofnun Lifrasamlags Vestmannaeyja, sem enn stendur vestar við Strandveginn.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar