Ísfélagið í Vestmannaeyjum
Ísfélagið er fyrsta vélknúna frystihús á landinu, en það tók til starfa um áramótin 1908-1909. Beituskortur hafði um árabil háð útgerð í Eyjum, en erfitt reyndist að geyma beituna og forða frá skemmdum. Eyjamenn höfðu til langs tíma leitað ýmissa ráða við þessu, farið til fjalla og sótt snjó, ef hann var að finna í snjóléttu byggðarlagi, og jafnvel sótt ís í tjörnina í Herjólfsdal, þótt þangað væri um langan, grýttan og óburðugan veg að fara. Snjókofar voru reistir til þess að geyma í snjó og voru t.a.m. raðir af þeim fyrir ofan byggðarlagið í Löngulág, niðurgrafnir og sett þök yfir. Voru jafnvel beitt bjóð geymd í kofum þessum, ef ekki gaf á sjó. Í beituhallæri var reynt að nota léttsaltaða síld, innyfli dýra og fýlabein. Með tilkomu línuveiða í lok 19. aldar varð beituskorturinn enn tilfinnanlegri en ella, enda margfaldaðist þá fjöldi króka í samanburði við handfæraveiðar fyrri alda. Vélaraflið hafði þá þegar rutt handaflinu til hliðar í bátaflota Eyjamanna, sem hafði vélvæðst á örfáum árum. Nýja íshúsið var einnig knúið áfram af vélum, sem í stað þess að koma bátum áfram, framleiddu kulda, og gerðu geymslu á beitu þar með mögulega. Eins og víða í framþróun sjávarútvegsins í Eyjum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar ber hæst nafn Gísla J. Johnsen, frumkvæði hans og athafnagleði. Vöxtur Ísfélagsins og umfang átti eftir að aukast á næstu áratugum og breytast í alhliða frysti- og fiskverkunarhús, eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Undanfarna áratugi hafa húsakynni Ísfélagsins við Strandveg staðið auð, þau hafa verið rifin eða endurbyggð til annarra nota s.s. til íbúðar. Starfsemin, sem áður fór þar fram, hefur færst í önnur hús og um borð í nútíma, hátæknivædd verksmiðjuskip.