Kastalinn í Vestmannaeyjum


Varnarvirki og verslunarstaður

Kastalinn var varnarvirki enskra kaupanna á 15. og 16 öld og náði utan um allstórt svæði, sunnan við Brattann svokallaða, austan í Tangahæðinni. Nafnið er dregið af enska heitinu Castle, enda höfðu enskir kaupmenn þar aðsetur. Þeir áttu viðskipti við eyjaskeggja sem vorum báðum hagstæð, en helsta útflutningsvaran var skreið sem var eftirsótt sunnar í álfunni. Íbúum í Vestmannaeyjum fjölgaði og sótti fólk af fasta landinu í auknum mæli út í Eyjar í þá hagsæld sem fylgdi viðskiptum við Englendinga og hækkandi verði á skreið. Skip þeirra komu hlaðin munaðarvörum á vorin og sigldu svo til baka full af skreið. Enskir höfðu að einhverju leyti vetursetu í Eyjum og áttu þar hús, skip og báta. Héldu þeir jafnvel kaupstefnur á staðnum, sem fjöldi manns sótti s.s. úr nærsýslum ofan af landi. Viðskipti fóru stundum úr böndunum við þá ensku á stefnum þessum og varð jafnvel mannfall, þegar sló í brýnu milli þeirra og landsmanna. Árið 1514 voru t.a.m. 12 eða 13 Englendingar drepnir af Síðumönnum, sem mætt höfðu til Eyja í kaupskaparerindum.

Væringar

Englendingar voru ekki aufúsugestir í augum danska konungsvaldsins, sem reyndi að hindra viðskipti þeirra við heimamenn á ýmsa lund. Lagðir voru skattar og tollar á vörur, og afurðagjöld skyldu greidd í konungssjóð, sem stundum gekk illa að innheimta. Viðskipti voru jafnvel gerð í skjóli nætur fram hjá lögum og reglum þeirra dönsku, þar sem hörðum refsingum var hótað og beitt. Tókst konungsvaldinu danska illa að sinna löggæslu svo langt í norðri, og árið 1557 sló danski kóngurinn eign sinni á alla verslun og útgerð í Eyjum. Hófst þá alger verslunareinokun kóngsins þar u.þ.b. hálfri öld fyrr en á landinu öllu,  og voru umboðsmenn konungs yfirleitt með staðgengla sína á staðnum. Lét kóngur byggja virki með fallbyssum árið 1586 í því skyni að verjast ágangi útlendra og mun sú framkvæmd vera upphafið að Skansinum, sem enn stendur. Áfram héldu þó róstur við Englendinga, sem héldu fast í rótgróna hagsmuni sína af fiskveiðum við Eyjar og kaupskap við heimamenn. Eftir 1600 fór mjög að draga úr ásókn Englendinga til Eyja.

Kastalasvæðið

Erfitt er í dag að átta sig á, hvar Kastalinn hefur verið. Svæðið hefur væntanlega verið afmarkað af grjóthleðslum og varnargörðum, enda um virki að ræða. Innan þess hafa staðið íbúðarhús og söluskálar ensku kaupmannanna. Gamla kennileitið Bratti hefur hugsanlega náð frá Tangahæðinni suður og austur með þáverandi sjávarmáli, sem lá tugum metra sunnar en í dag. Húsið Valhöll var t.a.m. byggt inn í bratta hæð við sjávarbakkann og næstu hús austar að Drífanda standa einnig, þar sem land hækkar sunnan þeirra. E.t.v. voru þarna nyrðri mörk Kastalasvæðis, sem náði frá sjó suður að núverandi Vesturvegi og jafnvel austur að Kirkjuvegi

Enn dafna viðskiptin

500 til 600 árum eftir veru Englendinga þarna er svæðið gjörbreytt og nákvæmlega engar vísbendingar um þá nema nafnið, sem lifði fram á 19. öld um hverfi tómthúsa þar í grennd. Hins vegar hafa viðskipti blómstrað áfram á þessum slóðum. Gamli rúnturinn var líklega að einhverju leyti hluti af hinu forna Kastalasvæði, en verslun og viðskipti blómstruðu við hann á 20. öld og gera að nokkru enn. Í dag ber mjög á stórverslun Bónus sem tekið hefur sér bólfestu á Kastalasvæðinu eða í jaðri þess og byggt stórhýsi með bílastæði fyrir viðskiptamenn sína. Ýmsar munaðarvörur eru þar á hillum sem forðum daga, þótt hertur fiskur sé væntanlega ekki í þeim mörgum og því síður notaður sem gjaldmiðill við eyjaskeggja! 

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar