Sandgerði í Vestmannaeyjum

Sandgerði, Vesturvegur 9b í Vestmannaeyjum, var heimili Árna Valdasonar. Árni fæddist undir Eyjafjöllum 17. september 1905, en hann flutti ungur til Eyja með foreldrum sínum. Árni varð síðar áberandi í bæjarlífinu fyrir drykkjuskap, sem mótaði svo mjög orð hans og æði, að hann fékk viðurnefnið Gösli og síðar Gölli Valda. Árni stundaði sjómennsku jafnhliða drykkjunni og þótti harðduglegur til allra verka. Hreysti hans var óvenju mikil, en hann þoldi kulda og vosbúð svo vel, að hann var jafnan létt klæddur og t.a.m. oft vettlingalaus til sjós. Berhentur greiddi hann úr netum svo rauk úr höndum, þegar frostið beit skipsfélaga hans vægðarlaust, þótt kappklæddir væru! Þessir eiginleikar Árna komu sér vel í þeirri lífsbaráttu, sem hann háði við Bakkus, oft berskjaldaður í gluggalausu og köldu hreysi sínu, þar sem veður, vindar og flaskan léku lausum hala. Svo fór þó að lokum, að Árna brást þrekið, og lést hann 26. júli 1970. Örlög Árna Valda, lífsbarátta hans og ógæfa, markaði svo djúp spor í hugum Eyjamanna, að hann lifir í ljóðum þeirra og lögum, sem alþjóð þekkir. Sandgerði er horfið, og hefur nýtt hús risið, þar sem Gölli Valda sat löngum stundum að sumbli með öðrum ógæfumönnum bæjarins.

 

Skildu eftir svar