Haugar í Vestmannaeyjum

Uppi varð fótur og fit í Vestmannaeyjum, þegar flokkur kvikmyndagerðarmanna frá 20th Century Fox í Bandaríkjunum mætti til Eyja árið 1984 til þess að taka upp kvikmyndina Enemy Mine. Í hópnum voru þekktir leikarar s.s. Dennis Quaid og Lou Gossett. Koma Bandaríkjamannanna setti hefðbundið líf á Heimaey úr skorðum, þeir þurftu húsnæði og ýmis konar þjónustu, s.s. ákveðna tegund af hvítvíni, sem mun fljótlega hafa klárast í áfengissölunni á staðnum og því þurfti að sérpanta aukabirgðir úr höfuðborginni! Kvikmyndin var tekin upp austan og sunnan við Eldfell, í gróðursnauðri öskuauðn fjallsins, svokölluðum Haugum, enda mun söguþráður myndarinnar hafa kallað á slíkt landslag. Nokkrir heimamanna nutu þeirra sérréttinda að starfa fyrir hinn frækna flokk austur á nýja hrauninu, en kvikmyndatökustaðurinn var afmarkaður og blátt bann lagt við því að óviðkomandi flækingar, fiðraður sem ófiðraðir, legðu þangað leið sína! Tókst ágætlega að halda þeim ófiðruðu fjarri, en fljúgandi fuglar munu hafa komið stundum inn á bannsvæðið og jafnvel eyðilagt einstakar tökur í miðjum klíðum! Framhaldið átti að taka upp á Skógasandi, en varð endasleppt, þegar leikstjórinn var snögglega leystur frá störfum og myndatöku hætt. Kvikmyndin varð síðar fullgerð með öðrum leikstjóra í öðru landi og mun ekki einn einasti sentmetri af filmunni úr Eyjum hafa hafnað í endanlegri útgáfu!

 

Skildu eftir svar