Blátindur í Vestmannaeyjum

Húsbrotið í hraunkantinum

Blátindur stóð við Heimagötu 12b. Leifar hússins urðu vinsælt myndefni eftir Heimaeyjargosið 1973, en einn húsveggur úr Blátindi með stórum glugga ásamt umgerð stóð út úr hraunkantinum um árabil og blasti við vegfarendum. Voru þessar húsarústir nánast þær einu, sem stóðu óhreyfðar í kjölfar mikils hreinsunarstarfs eftir gos, og minnismerki um þá geysilegu eyðileggingu, sem eldgosið hafði valdið byggðinni á Heimaey. Tæplega 400 hús og byggingar urðu hrauni og ösku úr Eldfelli að bráð, og var Blátindur meðal þeirra.

Endurgerð Blátinds

Tortímingarkraftur hraunsins úr Eldfelli var þó ekki allur, þótt áratugir liðu frá því að það kramdi í sundur hús og götur. Ljóst var, að rústir Blátinds mundu ekki standast til langframa þungann af hrauninu, sem að lokum tókst að kaffæra þær og brjóta endanlega undir sig. Við þessu var brugðist árið 2017 og byggð eftirlíking af húsveggnum á sama stað í hraunjaðrinum. Vegfarendur geta því sem áður gengið að þessum rústum Blátinds, fræðst um sögu hússins og séð myndir af því fyrir og eftir gos.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar