Boðaslóð 3 í Vestmannaeyjum

Skip að brenna?

Ólafur Vestmann átti lengstum heima á Boðaslóð 3 en hann var fæddur í húsinu Strönd við Miðstræti 9a árið 1906.  Ólafur varð þekktur á einni nóttu fyrir að verða fyrsti maðurinn sem leit neðansjávargos augum fyrir vestan Eyjar 14. nóvember 1963. Viðtöl við hann birtust í helstu fjölmiðlum þjóðarinnar.  Ólafur var þá háseti á mb. Ísleifi ll. Ve 36, sem var á veiðum fyrir vestan Eyjar, er hann snemma að morgni á svokallaðri baujuvakt varð þess var að hreyfingar bátsins urðu óvenjulegar.  Ruggaði hann nokkuð og snerist eins og í hringiðu.  Gekk Ólafur aftur fyrir stýrishús til þess að kanna hverju þetta sætti og grillti þá í þúst eða klett upp úr sjónum í myrkrinu sem hann átti ekki von á að sjá þarna.  Jafnframt fann Ólafur fnyk fylla loftið og reykjarstrók leggja frá hafinu og hugði skip brenna nálægt bátnum. 

Neðansjávargos
Heimaslóð

Upplifun Ólafs Vestmanns reyndist upphaf neðansjávargoss sem Eyjamenn höfðu fyrir augun í þrjú og hálft ár. Einkenndist gosið af miklum sprengingum og stóð gosmökkur upp frá sjávarfletinum mánuðum saman áður en eyja fór að myndast.  Reyndar urðu eyjarnar í gosinu fleiri en ein en sú sem stóð uppi og stendur enn fékk nafnið Surtsey.  Voru mjög skiptar skoðanir um nafngift þessa en margir vildu nefna nýju eyjuna eftir Ólafi Vestmann, Ólafsey. Eldgos svo nálægt byggð í svo langan tíma hafði heilmikil áhrif á bæjarbraginn á Heimaey.  Umræður bæjarbúa snerust mikið um gosið og framgang þess, alls kyns kenningar urðu til um sprengingar og flóðöldur sem vöktu ugg í hjörtum íbúanna.  Mörgum stóð ógn af þeim kröftum, sem þarna voru í gangi, einkum í vondum veðrum á myrkum vetrardögum sem nóttum.  Þegar hraungos hófst varð ásýnd gossins önnur og birtist Eyjamönnum þá rauður himinn í vestri og í fallegu veðri var vinsælt hjá bæjarbúum að safnast saman eins og t.d. við Hástein undir Hánni og njóta útsýnis þaðan. Þegar Surtseyjargosinu lauk árið 1967 hafði eyjunum í Vestmannaeyjaklasanum fjölgað í 15 eyjar. Ólafur Vestmann, sem fyrstur leit gosið  augum lést þremur árum síðar árið 1970.  Surtsey er í dag rúmrar hálfrar aldar gömul og sker sig frá öðrum hamraháum úteyjum Heimaeyjar sem fremur lágreist eyja, eins og mús eða rotta í laginu sem lúrir við sjóndeildarhring í vestri.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar