Byrgin í Sæfelli, Vestmannaeyjum

Við vestanverðar rætur Sæfells má sjá mannvirki, sem láta lítið yfir sér, en vekja spurningar um horfna lífshætti. Þetta eru veðruð, ferköntuð, steypt byrgi, yfirleitt með litlu opi að ofan og stærra á hlið, sem líkist helst dyragátt. Byrgin standa í jaðri gróinna túnskika, sem teygja sig vestur fjallshlíðarinnar að Höfðavegi. Þarna er um þrær að ræða, sem safnað var í fiskslógi og mykju til þess að bera á skikana. Búnaðarfélag Vestmannaeyja beitti sér fyrir því á fyrri hluta seinustu aldar að slíkar safnþrær væru byggðar með því að lána steyputimbur og sement til framkvæmdanna. Landbúnaður var stundaður á Heimaey um aldir jafnhliða sjósókn og úfnu hrauni og grýttum melum umbreytt í grösug tún. Þrærnar fylgdu þessari umbreytingu á landinu og mátti sjá þær víða áður um Heimaey en þær og nærliggjandi tún urðu að víka fyrir húsum og götum í ört vaxandi bæ á 20. öld. Kaupstaðurinn hefur þó enn ekki teygt sig suður á eyju, og þar má enn líta landslag landbúnaðarsamfélags og leifar horfinna búskaparhátta.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar