Eldheimar í Vestmannaeyjum
Eldheimar er gosminjasafn ofarlega í hlíðum Eldfells. Safnið geymir rústir húss, sem hvarf undir gjall og ösku ásamt fjölmörgum öðrum húsum í Heimaeyjargosinu 1973. Grafið var niður að húsinu árið 2008, en þá hafði það hvílt undir u.þ.b. 16 m öskulagi í 35 ár. Út- og innveggir ásamt lofti höfðu að mestu leyti staðið af sér farg öskunnar og þarna sjá má híbýli fjölskyldu, sem var ein þeirra fjölmörgu, sem forðuðu sér úr húsi sínu um miðja nótt og leit það ekki aftur augum ……. fyrr en áratugum síðar! Þótt húsið, sem stóð við Gerðisbraut á Heimaey, sé miðpunktur gosminjasafnsins, má fræðast um eldgosið í myndum og máli sem og samfélagið í Eyjum frá fyrri tíð. Höfðað er til flestra skilningarvita, sjón- og snertiskyns undir áhrifaríkum drunum frá eldgosinu, svo hroll setur að gestum, a.m.k. þeim sem upplifðu nóttina örlagaríku.