Espihóll í Eyjafirði

Bær í Eyjafirði, löngum stórbýli og höfðingjasetur. Bærinn kemur við sögu í Víga-Glúms sögu og í Sturlungu er sagt frá því að hér hafi Kolbeinn grön Dufgusson verið drepinn árið 1254 að undirlagi Gissurar Þorvaldssonar vegna Flugumýrarbrennu en hann var einn brennumanna. Kolbeinn var einn af Dufgusbræðrum en þeir voru synir Dufgusar Þorleifssonar, bónda á Sauðafelli í Dölum og Þuríðar, laundóttur Hvamm-Sturlu. Kolbeinn bjargaði frænku sinni Ingibjörgu Sturludóttur úr eldinum. Hér bjó Þórarinn, sonur Þóris Hámundarsonar heljarskinns og barnabarn Helga magra í Kristnesi.

Jón Espólín

Hér fæddist Jón Jónsson sýslumaður og sagnaritari árið 1769 en hann kenndi sig við bæinn og kallaði sig Jón Espólín. Jón var hálfbróðir Stefán Þórarinssonar (1754-1823) amtmanns sem tók upp ættarnafnið Thorarensen. Jón var afkastamikill sagnaritari og ættfræðingur og við hann er kennt ættfræðiforritið Espólín.

Elín Briem og Kvennafræðarinn

Hér fæddist einnig Elín Briem (1856-1937), dóttir Eggerts Briem (1811-1894) sýslumanns og konu hans Ingibjargar Eiríksdóttur (1827-1890). Eggert var sonur Gunnlaugs Briem (1773-1834) frá Brjánslæk. Elín var stofnandi og skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur og höfundur Kvennafræðarans en bókin var ein af fyrstu matreiðslubókunum sem gefin var út hér á landi. Bróðir Elínar var Ólafur Briem, alþingismaður og sýslumaður.

Skildu eftir svar