Eyjarhólar í Vestmannaeyjum
Guðlaugur Gíslason, bæjarstjóri og alþingismaður
Í þessu húsi ólst Guðlaugur Gíslason upp, síðar bæjarstjóri og alþingismaður Vestmannaeyja, en faðir hans reisti það um miðjan annan áratug 20. aldar. Eyjarhólar voru þá í jaðri bæjarins, sem var í hraðri uppbyggingu samhliða vaxandi vélbátaútgerð. Í dag stendur húsið við Hásteinsveg, veginn vestur að Hásteini, en gatan var þá ekki til nema í formi traðar fyrir gangandi fólk og hestvagna. Eyjarhólar voru byggðir með byggingarlagi, sem ruddi sér til rúms í Eyjum í upphafi 20. aldar, steyptur kjallari, hæð og ris úr timbri og klætt með bárujárni. Þarna ólst Guðlaugur upp ásamt móður sinni og systkinum, en faðir hans féll frá árið 1919. Hann lærði snemma að bjarga sér, „veiddi“ m.a. fisk á veturna, sem féll við löndun í sjóinn milli báta og Bæjarbryggjunnar og vann við saltfisksverkun á stakkstæðum á sumrin.
Verslun, bæjarstjórn og þingmennska
Eftir verslunarnám í Kaupmannahöfn byggði Guðlaugur verslunarhús við Skólaveg 21, þar sem hann rak verslunina Geysi ásamt bróður sínum frá 1932, en bjó sjálfur á efri hæð hússins með fjölskyldu sinni. Hann komst ungur til áhrifastarfa í Eyjum, varð einn af forystumönnum bæjarins og bæjarstjóri frá árinu 1954 til 1959, er hann varð þingmaður Vestmannaeyja. Á þessu árabili voru miklar framkvæmdir við höfnina, m.a. steyptur garður þvert yfir Lækinn milli Bæjarbryggju og Edinborgarbryggju og hurfu þar með hin fornu hróf. Þá var Nausthamarsbryggja byggð, bátakví inni í Friðarhöfn og nýtt í þróttasvæði í Löngulág. Guðlaugur sat á Alþingi til ársins 1978, en þá var hann orðinn sjötugur að aldri og hafði óslitið setið 21 þing.
Íþróttir og ritstörf
Mikill íþróttaáhugi og geta einkenna afkomendur Guðlaugs, sem sjálfur stundaði knattspyrnu á yngri árum. Dóttir Guðlaugs var Jakóbína Guðlaugsdóttir, sem var margfaldur Íslandmeistari kvenna í golfi á fyrstu árum 8. áratugar síðustu aldar. Dætra-dætradætur Guðlaugs eru Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur, kunnar knattspyrnukonur með landsliðum Íslands sem og Arna Pálsdóttir, lansliðskona í handknattleik. Guðlaugur lést 1992, en árin 1982 og 1983 komu út sögulegir annálar og æviminningar hans í bókunum Eyjar gegnum aldirnar og Guðlaugssaga Gíslasonar.