Flateyri við Önundarfjörð

Mynd ismennt.is

Flateyri er þorp á Vestfjörðum sem stendur á samnefndri eyri við norðanverðan Önundarfjörð. Þorpið er hluti af Ísafjarðarbæ og þann 1. janúar 2014 voru íbúar Flateyrar 204. Árið 1964 voru íbúar Flateyrar 550.

Hvalveiðimaðurinn Ellefsen

Vitað er að byrjað var að versla á Flateyri á seinni hluta 19. aldar en hvalveiðar Hans Ellefsen í lok 19. aldar ýttu undir vöxt staðarins og um aldamótin 1900 voru Flateyringar orðnir um 250 talsins. Hans Ellefsen þessi „seldi“ Hannesi Þ. Hafstein, ráðherra, hús sitt á Flateyri fyrir 5 krónur. Húsið var flutt og endurbyggt við Tjarnargötu í Reykjavík og er þekkt í dag sem Ráðherrabústaðurinn.

Snjóflóðið 1995

Þann 26. október 1995 kl. 4:07 féll stórt snjóflóð á bæinn og fórust 20 manns í flóðinu, 10 karlar, 6 konur og 4 börn. Flóðið kom úr Eyrarfjalli, 660 metra háu fjalli sem bærinn stendur undir. Strax um nóttina tókst að bjarga 6 mönnum úr flóðinu og um hádegisbil öðrum fjórum. Lenti snjóflóðið á 32 húsum. Þetta var annað mannskaðaflóðið á Vestfjörðum þetta árið því þann 16. janúar féll snjóflóð á Súðavík sem kostaði 15 manns lífið. Sóley Eiríksdóttir var 11 ára gömul þegar snjóflóðið skall á húsinu hennar.  Hún vaknaði við það að allt lék á reiðiskjálfi og síðan var eins og að hvít alda kæmi inn um gluggann. Næst þegar Sóley vissi af sér þá gat hún sig hvergi hreyft en áttar sig fljótt á því hvað hafði gerst. Skelfingu lostin byrjar hún að kalla á hjálp en án árangurs. Smám saman róaðist hún og ákveður að bíða eftir hjálp sem barst ekki fyrr en 9 klst síðar. Skömmu eftir björgunina fær hún þær fregnir að eldri systir hennar hafi látið lífið í flóðinu. 21 ári síðar, árið 2016, gaf hún út bókina Nóttin sem öllu breytti með Helgu Guðrúnu Johnson.

Skildu eftir svar