Víkurgarður

Mynd ESSBALD

Víkurgarður, einnig þekktur sem Fógetagarðurinn, er almenningsgarður á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Um aldir var hér helsti kirkjugarður Reykvíkinga en talið er að hér hafi staðið kirkja, Víkurkirkja, allt frá því um 1200. Síðasta kirkjan sem hér stóð var rifin árið 1789 en kirkjugarðurinn var áfram notaður til ársins 1839 þegar Hólavallagarðurinn við Suðurgötu var tekinn í notkun. Það má því segja að hér hvíli 30 kynslóðir af Reykvíkingum!

Garður Shierbecks landlæknis

Þetta er elsti almenningsgarður í Reykjavík en rekja má upphaf hans til ársins 1883 þegar Georg Shierbeck landlæknir og fyrsti formaður Hins íslenska garðyrkjufélags plantaði fyrstu trjánum hér. Þótt garðurinn sé að mestu leyti hellulagður í dag þá má enn sjá silfurreyni sem gróðursettur var hér árið 1884 en tréð er talið elsta gróðursetta tréð í Reykjavík. Í garðinum stendur stytta af Skúla Magnússyni landfógeta, oft nefndur faðir Reykjavíkur, eftir Guðmund frá Miðdal. Í garðinum eru einnig minnisvarðar um hinn horfna kirkjugarð og Schierbeck landlækni.

Skildu eftir svar