Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði
Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði er einn af þremur spítölum sem Frakkar reistu á Íslandi í lok 19. aldar og byrjun 20. aldar til að þjóna frönskum sjómönnum á Íslandsmiðum. Hinir spítalarnir voru í Vestmannaeyjum og Reykjavík.
Þorskveiðar Frakka við Íslandsstrendur
Franskir sjómenn stunduðu þorskveiðar við Ísland frá því snemma á 17. öld fram á 20. öld. Talið er að a.m.k. 400 franskar skútur hafi farist á Íslandsmiðum, og með þeim fjögur þúsund sjómenn, síðustu öldina sem þessar veiðar voru stundaðar. Spítalinn á Fáskrúðsfirði var byggður 1903 og tekinn í notkun 1904. Á þeim tíma var spítalinn fullkomnasta sjúkrahús landsins. Auk spítalans reistu Frakkar fjögur önnur hús á Fáskrúðsfirði á tímabilinu 1896-1907; sjúkraskýlið (1896), kapelluna (1898), líkhúsið og læknishúsið (1907).
Endurgerð Minjaverndar
Árið 1939 var spítalahúsið flutt út á Hafnarnes þar sem það fékk að gronta niður. Þegar Minjavernd ákvað árið 2008 að gera húsið, kapelluna, sjúkraskýlið og læknishúsið upp var húsið flutt aftur í bæinn en fékk þó nýja staðsetningu, Hafnargötu 11-14. Í húsinu er nú rekið hótel. Árið 2016 fékk Minjavernd menningarverðlaun Europa Nostra fyrir enduruppbyggingu og umbreytingu Franska spítalans í safn.
Fransí biskví
Elín Pálmadóttir, blaðamaður á Mbl, skrifaði bókina Fransí biskví um veiðar Frakka hér við land um þriggja alda skeið. Bókin kom út árið 1989 og var hún tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 2015 var Elín sæmd æðstu orðu Frakklands fyrir framlag sitt í þágu Frakkalands og franskrar menningar.