Goðasteinn í Vestmannaeyjum

Skólamaðurinn

Í Goðasteini bjó Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólamaður, rithöfundur og frumkvöðull í margs konar félags- og menningarstarfsemi í Eyjum frá því snemma á 20. öld og fram á seinni hluta aldarinnar. Þorsteinn var Austfirðingur, f. 19. okt. 1899, og flutti til Eyja 1927 til þess að taka við stjórn Unglingaskóla Vestmannaeyja, sem þá hafði verið starfræktur í nokkur ár. Nokkrum árum síðar varð Unglingaskólinn að Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og síðar að núverandi Framhaldsskóla. Þorsteinn háði langa baráttu á 4. og 5. áratug seinustu aldar fyrir því að koma upp byggingu Gagnfræðaskólans, sem fléttaðist mjög inn í hatramma, pólitíska valdabaráttu í bænum á þessum áratugum. Stóð hann í stafni skólans í marga áratugi og dreif skólastarfið áfram af miklum dug.

Félagsmálin

Þorsteinn var eldhugi og hugsjónamaður, sem barðist fyrir hugðarefnum sínum „með kjafti og klóm“. Hann lét mikið til sín taka í bæjarmálum, í ræðum, ritum og aðgerðum, gekk snemma í Verkamannafélagið Drífanda, til liðs við sosíaldemókrata gegn kommúnistum, sem börðust hart um yfirráðin í félaginu á miklum umbrotatímum kreppuáranna. Þorsteinn beitti sér fyrir stofnun Kaupfélags alþýðu, sem stefnt var gegnt ákvenum pólitískum öflum í bænum og síðar fyrir stofnun Sparisjóðs Vestmannaeyja. Hann var ötull safnari ýmissa muna og verðmæta frá fyrri tíð, sem síðar varð að Byggðarsafni Vestmannaeyja með aðsetur í núverandi Safnahúsi Vestmannaeyja, en Þorsteinn stóð að byggingu þess með krafti sínum og eldmóð.

Rithöfundurinn

Í marga áratugi gaf Þorsteinn út tímaritið Blik, sem var í fyrstu að miklu leyti tengt skólastarfinu í Gagnfræðaskólanum, en teygði sig með tíð og tíma til fjölmargra sviða mannlífs, menningar og sögu Vestmannaeyja. Geymir ritið geysilegan fróðleik, og er með ólíkindum, hve Þorsteinn kom miklu i verk á ritvellinum fyrir utan afköst hans á öðrum vettvangi! Ritið er nú aðgengilegt á vefslóðinni heimaslod.is, en sonur Þorsteins, Víglundur, er þar einnig afkastamikill höfundur að æviskrám Eyjafólks.

Djúp spor

Þorsteinn varð að flýja Heimaeyjargosið 1973 ásamt öðrum Eyjamönnum, en lést í Reykjavík 1984. Hann skildi eftir sig óvenju djúp spor í Eyjum, sem enn eru víða greinileg. Dóttursynir Þorsteins eru þeir bræður Sigfússynir: Þorsteinn, Árni, Gylfi og Þór, kunnir athafnamenn og fumherjar, en afabróðir þeirra í föðurætt var Gísli J. Johnsen, eldhugi og frumkvöðull að mörgum framfaramálum í Eyjum á fyrstu áratugum 20. aldar. Þeir bræður slitu barnsskónum í návist við afa sinn og ömmu, innar í sömu götunni, en bernskuheimili þeirra var grafið upp eftir gos og stendur við hraunjaðarinn úr Heimaeyjargosinu.

Heimaeyjargosið

Goðasteinn stendur enn við Kirkjubæjarbraut 11 og hefur haldið upprunalegu útliti sínu, þrátt fyrir að hafa orðið fyrir miklum skemmdum í Heimaeyjargosinu, enda húsið á kafi í vikri og rétt slapp við að verða hraunstraumnum að bráð. Umhverfið er gjörbreytt frá dögum fyrsta eigandans og húsbyggjandans, Þorsteins Þ. Víglundssonar, en frá húsi sínu gat hann séð yfir austurhluta eyjarinnar, þar sem Goðasteinn stóð fremur hátt á Heimaey. Allt þetta umhverfi er nú horfið og út um austurglugga Goðasteins sést í dag aðeins brunnið hraun.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar