Grund í Vestmannaeyjum

Árni Árnason frá Grund var fæddur á Vestri-Búastöðum í Vestmannaeyjum 19. mars 1901 og flutti kornungur með foreldrum sínum í nýtt, lítið íbúðarhús á horni Kirkjuvegar og Sólhlíðar, sem hlaut nafnið Grund. Við það hús var hann síðar ávallt kenndur. Árni starfaði lengstum sem símritari í Eyjum. Þar sem lengi var engin loftskeytastöð í Eyjum þurfti hann oft að fara út á Eiði, vestur á Hamar og víðar um Heimaey, þegar óveður geisuðu, til þess að gefa ljósmerki, morsa, og fá á þann hátt togara til þess að leita báta sem týndir voru. Árni var afar virkur í alls kyns félagsstarfsemi, leiklist, íþróttum, fjallamennsku og fl. og var m.a. liðsmaður í knattspyrnuliði Eyjamanna, sem tók öðru sinni þátt í Íslandsmótinu 1920.
Árna verður þó e.t.v. helst minnst fyrir fræðistörf sín, alls kyns fróðleik um menn og málefni í Eyjum, sem hann ritaði niður af mikilli elju. M.a. skrifaði hann sögu leiklistar í Eyjum og birtust margar greinar eftir hann í blöðum og ritum á staðnum sem og á fastalandinu. Lengi vel voru þó ritstörf Árna að mestu óbirt þar til áhugamenn í Eyjum tóku sig til og komu ýmsu til skila í mikilli bók, Eyjar og úteyjalíf, sem kom út árið 2012. Þá var mikið efni eftir Árna gert aðgengilegt á veraldarvefnum heimaslóð.is. Ritstörf Árna geyma mikinn fróðleik úr sögu Vestmannaeyja, sem komandi kynslóðir munu geta leitað í. Grund var rifin 1975, en önnur Grund er í dag, stórt íbúðahús, reist á svipuðum slóðum og sú gamla. Árni símritari frá Grund lést 13. október 1962.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar