Eiðið í Vestmannaeyjum

Ingólfur og þrælarnir

Eiðið, er sandrif, sem tengir Heimaklett og norðurklettana við undirlendi Heimaeyjar. Samkvæmt Landnámu kom Ingólfur Arnarson að þrælum Hjörleifs Hróðmarssonar, fóstbróður síns, á Eiðinu eftir að þeir höfðu vegið Hjörleif og menn hans í Hjörleifshöfða og flúið út í eyjar með skip Hjörleifs, konur og lausafé. Þrælarnir voru Írar, en þeir voru einnig nefndir Vestmenn og eyjarnar nefndar eftir þeim, Vestmannaeyjar. Ingólfur elti þá uppi og drap og eru ýmis örnefni frá þrælunum komin auk heiti eyjanna, svo sem Eiðið, sem er stytting af Þrælaeiði, Dufþekja og fl. Eiðið og norðurklettarnir mynda var fyrir höfnina á Heimaey.

Löndunarstaður

Á tímum árabátaútgerðar var fiski stundum landað á Eiðinu í stað þess að róið væri austur fyrir Heimaklett og Klettsnef og inn Leiðina til hafnar. Gerðist þetta einkum þegar mikið fiskaðist við Landeyjasand og vestan við Heimaey og allt kapp lagt á það að spara sér þann tíma sem tók að róa fyrir Klettinn og koma fiskinum stystu leið frá báti. Þegar svo stóð á var bátsverji fyrst settur í land, hann kom fyrir veifu á ákveðnum veifustað svo hægt væri að kalla til aðstoðar þá þorpsbúa, að mestu leyti kvenfólkið, sem tengdust viðkomandi báti. Fiskurinn var seilaður upp úr bátunum, seilarnar bundnar saman við taug, hann síðan dreginn í land og svo var haldið aftur á miðin. Kvennanna beið svo burður með fiskinn, oftast 4 fiska í hverri ferð, tvo í hvorri hendi, sem þær héldu uppi á sérstökum dráttar- eða burðarkrókum. Var um alllangan veg að fara, jafnvel margar ferðir, yfir Botninn, austur  með ströndinni í krærnar upp af Læknum þar sem þær gerðu loks að fiskinum fyrir söltun og geymslu. Löndun á Eiðinu fylgdi mikið erfiði fyrir konurnar sem bættist við strit af heimilishaldi og bústörfum þeirra í landi. Þetta var m.a. hlutskipti þeirra um aldir, þegar lífsafkoman byggðist fyrst og fremst á líkamsstyrk og þoli.

Útilegur

Ef leiðið fyrir Ystaklett var tvísýnt og/ eða Leiðin inn að höfninni ófær og sjómennirnir örmagna eftir barning í ölduróti Atlantshafsins var árabátunun stundum hleypt í land á Eiðinu. Þurfti þá að flytja bátana yfir rifið, sem var erfitt, enda þeir stórir og þungir. Lögðust þá allir á eitt, en fjöldi eyjaskeggja safnaðist fyrir á Eiðinu á slíkum stundum til þess að taka á móti bátunum og koma þeim yfir í hrófin hinum megin hafnar. Eftir aldamótin 1900, þegar vélbátaútgerð  hófst, sóttu Eyjamenn sjóinn af enn meiri ákefð en fyrr, enda drifnir áfram af vélarafli, sem kom þeim lengra og lengra á áður óþekkt mið. Fyrr en varði gat skollið á óveður, og var þá stefnt á Heimaey, oft í myrkri um hávetur. Þóttust menn hólpnir, þegar þeir komust í var undir Eiðinu. Lá oft fjöldi báta og erlendra togara undir Eiðinu, í skjóli af Norðurklettunum, uns öldur lægði og fært var að taka lokahnykkinn inn Leiðina. Frá 1906 til 1930 munu alls 87 vélbátar með 456 mönnum hafa þurft að liggja einhvern tíma úti undir Eiðinu oftast í ofviðrum. Á þessu tímabili, 24 árum, fórust 28 vélbátar og 104 menn drukknuðu við sjóróðra. Í útilegunni miklu 11. febrúar 1928, sem lengi var í minnum höfð í Eyjum, náðu 19 bátar ekki í höfn vegna óveðurs og lágu margir þeirra undir Eiðinu þar sem þeir þraukuðu næturlangt þar til veður lægði. Önnur minnisstæð útilega var 10. janúar árið 1944 en þann dag reru 11 línubátar frá Eyjum og margir þeirra leituðu vars lengi nætur undir Eiðinu í veðurofsa, snjókomu og náttmyrkri.

Póstþjónusta

Frá Eiðinu var póstur stundum sendur fyrr á öldum til meginlandsins, þegar engin voru póstberar, skip né bátar, og koma þurfti skilaboðum eftir öðrum leiðum.  Voru þau þá sett í flösku, vel gengið frá tappanum og lakkað yfir áður en henni var hent í sjóinn og straumar hafsins látnir um framhaldið. Stundum var tóbaksspönn látin fylgja sem þóknun eða burðargjald til finnandans.  Á vetrarvertíðinni 1883 kom frönsk skúta til Eyja með skipverja á árabátnum Þorkeli frá Þorlákshöfn, sem lent höfðu í hrakningum og bjargað um borð í skútuna.  Nú reið á að koma boðum til lands um þessa giftusamlegu björgun og var þá eftirfarandi bréf sent í flöskupósti frá Eiðinu:

“Hér kom í gær frakknesk fiskiskúta með Þorkel frá Óseyrarnesi og alla skipshöfn hans heila á húfi, er hún hafði fundið á hafi úti og bjargað.  Þetta er finnandinn vinsamlega beðinn að hlutast til um, að verði tafarlaust tilkynnt hlutaðeigendum.”

Straumar hafa verið hagstæðir að þessu sinni, því flaskan fannst daginn eftir á fjörum í Vestur- Landeyjum, fréttin barst með ógnarhraða um nærliggjandi sveitir og til foreldra sögumanns þarnæsta dag!  Höfðu bátsverjar þá verið taldir af í 10 daga.

Síminn

Á Eiðinu er minnisvarði um þann samskiptamáta sem tók við af flöskuskeytinu. Stytta með símtóli stendur austarlega á Eiðinu. Hún er frá árinu 2006 og stendur sem minnisvarði um lagningu símastrengs til Eyja árið 1911. Tveimur árum áður var lokið við að leggja símalínu frá Reykjavik austur á Garðsauka vestan Hvolsvallar, og látið þar við sitja. Mikill áhugi hafði kviknað í Eyjum fyrir því að tengjast þessari línu, sem ekki var svo langt undan, með sæsímastreng, og þegar ekkert gerðist, tóku Eyjamenn verkið í eigin hendur. Boðið var til fundar í maí 1911, hlutafélag stofnað og fjársöfnun hafin bæði í Eyjum og uppi á landi. Þetta var risaverkefni sem endaði með lagningu strengs í ágúst og fór fyrsta símasambandið fram af Eiðinu milli Reykjavíkur og Eyja 6. september 1911. Ritsíminn var tekinn í notkun tveimur dögum síðar. Síminn var lagður á staurum vestur fyrir Botninn og í húsið Boston sem stóð við Formannabraut, sem varð þar með fyrsta símstöðin í Eyjum.

Sundkennsla

Návistin við hafið gerði Eyjamenn meðvitaða um nauðsyn þess að geta haldið sér á floti og bjargað sér við þann atvinnuveg, sem þeir stunduðu. Seint á 19. öldinni hófst skipulögð sundkennsla á Eiðinu aðallega undir Litlu-Löngu við Heimaklett, en eyjaskeggjar voru fyrstir á landinu til að taka upp sundkennslu sem skyldunámsgrein fyrir börn. Reistur var sundskáli 1913, en leifar hans sáust langt fram eftir öldinni eftir að sundkennsla þarna lagðist af. Algengur hiti sjávar var 10-15 gráður. Ýmsir þekktir einstaklingar kenndu sund á Eiðinu, s.s. Eldeyjar- Hjalti árið 1894, Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri, ári seinna og síðar Gísli J. Johnsen, athafnamaður. Jóhann Gunnar Ólafsson frá Reyni, seinna bæjarstjóri í Eyjum var sundkennari um tíma svo og  Ásgeir Ásgeirsson, árið 1914, síðar forseti Íslands. Ásgeir var dóttursonur Sólveigar Pálsdóttur, skálda, prests á Kirkjubæjum, fyrstu ljósmóðurinnar í Landlyst.

Sjóslysið 1924

Aldan við Eiðið gat verið lífshættuleg, þegar hún skall yfir menn og báta í fjöruborðinu.  16. desember 1924 fórust t.a.m. 8 menn við Eiðið, þegar bát þeirra hvolfdi við sjósetningu. Unglingspiltur lifði af slysið og var bjargað, þar sem hann náði að hanga utaná bátnum. Skip Eimskipafélagsins, Gullfoss, var að koma til landsins og varpaði akkerum fyrir utan Eiðið til þess að fá lækni um borð, Halldór Gunnlaugsson, sem kannað gæti heilsufar farþega áður en siglt væri áfram til hafnar á meginlandinu. Hert hafði verið á slíku eftirliti í kjölfar spænsku veikinnar, en skipverjar á Esjunni, sem einnig lá skammt frá fyrir akkerum, reyndu að bjarga mönnunum en án árangurs. Einn þeirra, sem drukknaði, var Guðmundur Guðjónsson, 24 ára sonur hjónanna í Norðurbænum á Kirkjubæ. Þau höfðu séð á eftir öðrum syni sínum í hafið 4 mánuðum áður, og átti Guðmundur að sækja mynd af látnum bróður sínum út í skipið, sem send hafði verið utan til innrömmunar. Húsfreyjan á Kirkjubæ lifði það að missa 2 syni sína til viðbótar í hafið 12 árum seinna, þegar þeir drukknuðu með vélbátnum Víði.

Sundafrek Eyjólfs

Sundfærni einstakra manna var slík, að þeir lögðu til atlögu við hafið einungis til þess að þreyta kapp við ölduna fremur en sér til lífsviðurværis.  Svo var tilgangur Eyjólfs Jónssonar, sundkappa, 13. júlí 1959, þegar hann gekk í sjó fram af Eiðinu kl. nákvæmlega 9 að morgni. Hann hafði áður verið vel smurður í Vinnslustöðinni og fór svo þaðan á sundstað. Ferðinni var heitið um 10 km yfir sundið til lands, og fylgdu Eyjólfi aðstoðarmenn um borð í vélbát og einnig árabát. Eyjólfur hafði þegar afrekað að synda út í Drangey, frá Reykjavík til Akraness og fl., og þá reyndi hann síðar tvisvar við Ermasund fyrstur Íslendinga, en varð frá að hverfa í bæði skiptin. Sund Eyjólfs frá Eiðinu gekk hins vegar mjög vel. Sjávarhitinn var um 11 stig, meðalhraði um 2 km á klst., og öll skilyrði reyndust honum hagstæð, straumur hliðhollur og hægur vindur. Þegar Eyjólfur steig á land á Landeyjasandi, hafði hann verið á sundi í 5 klst. og 26 mín. og mælti af vörum: „Jæja, þetta lukkaðist!“  A.m.k. 2 sundmenn hafa síðan leikið afrek Eyjólfs eftir.

Eiði fyrri alda á lítið sameiginlegt með því sem nú er nema staðsetninguna. Miklar uppfyllingar hafa orðið á seinustu öld, og bryggjur og hafnarhús leyst af hólmi fjörur og sanda, sem fyrrum voru einkennandi norðan megin hafnar. Skipalyfta og atvinnuhúsnæði tengd sjávarútveginum setja nú mestan svip á svæðið, sem langt fram á 20. öldina var hluti af ósnortinni náttúru Heimaeyjar.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar