Laufásvegur 5 í Reykjavík

Þetta hús reisti Jón Árnason (1819-1888) þjóðsagnasafnari árið 1879/1880 úr tilhöggnu grágrýti og Esjukalki. Er húsið eitt af fyrstu steinhúsunum í Reykjavík sem reist var sem íbúðarhús. Upphaflega var lóðin kennd við Skálholtsstíg en síðar var því breytt í Laufásveg.

Brúðargjöf Þóru biskups og Þorvaldar

Árið 1887 fengu Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921) og kona hans Þóra Pétursdóttir (1848-1917) húsið í brúðkaupsgjöf frá foreldrum Þóru, Pétri Péturssyni  (1808-1891) biskupi og konu hans Sigríði Bogadóttur (1818-1893), dóttur Boga Benediktssonar sýslumanns á Staðarfelli í Dölum.   Þorvaldur var sonur Jóns Thoroddsen  (1819-1868) skálds og sýslumanns og bróðir Skúla Thoroddsen (1859-1916) ritstjóra og alþingismanns en Skúli hitti einmitt verðandi eiginkonu sína, Theódóru Guðmundsdóttur, í húsinu. Þorvaldur var fóstursonur Jóns og konu hans Katrínar Þorvaldsdóttur Sívertsen úr Hrappsey en Katrín var systir Kristínar konu Jóns Thoroddsen. Jón Árnason og Katrín fluttu í kjallara hússins eftir að Þorvaldur og Þóra eignuðust það. Um Þóru skrifaði Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur bókina Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar sem út kom árið 2010.

Listrænir íbúar

Margir þekktir einstaklingar hafa átt eða búið um lengri eða skemmri tíma í húsinu að Laufsásvegi 5. Um tíma átti Jón Ólafsson  (1850-1916), ritstjóri og höfundur ljóðsins „Máninn hátt á himni skín“ húsið. Þá bjuggu Stefanía Guðmundsdóttir leikkona, eiginmaður hennar Borgþór Jósefsson og dætur þeirra Anna Borg, Þóra Borg og Emelía Borg einnig í húsinu.

Merkur garður

Árið 1888 gróðusettu Þorvaldur og Þóra hlyn (Garðahlyn) við suðurgafl hússins sem enn stendur. Er tréð því eitt af elstu gróðursettu trjánum í Reykjavík. Síðar gróðursetti Stefanía Guðmundsdóttir fyrstu útirósirnar í Reykjavík í garðinum á bak við húsið að sögn dóttur hennar Önnu Borg.

Heimildir: Páll Líndal. Reykjavík: Sögustaður við Sund, Wikipedia og Minjastofnun.

Smella hér til að skoða götumynd á google.maps

Skildu eftir svar