Lindargata 51 í Reykjavík

Mynd ESSBALD

Árið 1890 stóð hér bærinn Eyjólfsstaðir sem Eyjólfur Ólafsson átti. Árið 1902 var Björn Jónsson ritstjóri orðinn eigandi að lóðinni en seldi franska sjómálaráðuneytinu hana sem reisti hér nokkur hús sem ætluð voru frönskum skipbrotsmönnum. Um aldamótin voru þau hús flutt annað og bygging franska spítalans hófst.

Franski spítalinn

Hér reistu samtökin Société des hopitaux francais d´Islande einn af þremur spítulum sem Frakkar létu reisa á Íslandi um aldamótin 1900. Hinir tveir voru á Fáskrúðsfirði og í Vestmannaeyjum. Spítalanum var einkum ætlað að þjóna frönskum sjómönnum á Íslandsmiðum en margt bendir til þess að meirihluti sjúklinga hér hafi verið íslenskir. Var spítalinn reistur árið 1902, sama ár og Bjarni Jónsson snikkari byggði stórhýsi sitt við Hverisgötu 83 rétt handan við hornið en það hús hefur verið fyrsta fjölbýlishúsið á Íslandi (sjá færsluna Bjarnaborg).

Mötuneyti, skólastarf og bókasafn

Árið 1929 keypti Reykjavíkurborg húsið og um tíma var það notað sem leiguhúsnæði og mötuneyti fyrir almenning. Árið 1935 var húsið tekið undir Gagnfræðaskóla Reykjavíkur sem lengi gekk undir nafninu Ingimarsskóli í höfuðið á fyrsta skólastjóra skólans, Ingimar Jónssyni. Kona Ingimars var Elínborg Lárusdóttir rithöfundur. Síðar varð skólinn þekktur sem Lindargötuskólinn. Hér var einnig fyrsta útibú Borgarbókasafnsins en barnadeild safnsins var flutt hingað árið 1933.

Tónmenntaskólinn

Árið 1977 hóf Tónmenntaskóli Reykjavíkur starfsemi sína í skólanum en fyrirrennari hans, Barnamúsikskólinn, var stofnaður árið 1952 af Heinz Edelstein (1902-1959), föður bræðranna Wolfgang Edelstein og Stefáns Edelstein. Wolfgang, sem á tímabili starfaði sem ráðgjafi íslenskra stjórnvalda í menntamálum, var einn af stjórnendum Max Planck stofnunarinnar í Berlín á árunum 1981-1997. Stefán Edelstein er núverandi (2018) skólastjóri Tónmenntaskólans.

Sjá einnig færslurnar Franski (Gamli) spítalinn og Franski spítalinn (Fáskrúðsfjörður).

Smella hér til að skoða götumynd á google.com.

Skildu eftir svar