Ofanleitishraun í Vestmannaeyjum

Syðsti hluti Ofanleitishrauns er enn að nokkru í upprunalegri mynd, þótt vegir og hús þrengi mjög að því. Hraunið mun hafa runnið þarna fyrir allt að 10 þúsund árum síðan, er á köflum hrjóstrugt og úfið, þótt jarðvegsmyndun í aldir hafi jafnað við jörðu kletta og dranga. Víða voru gjótur og jafnvel hellar, s.s. Hundraðmannahellir, þar sem margir eyjabúar leituðu skjóls í Tyrkjaráninu 1627. Mannfólkið mun fljótt hafa tekið til við að móta hraunið og nýta það s.s. fyrir geymslustaði á fiski. Fiskbyrgi hafa verið hlaðin í hraungjótum eins og það, sem varð sögusvið þekkts morðmáls á 17. öld. Seinna var farið að reita hraunið niður með hlöðnum veggjum úr hraungrýtinu á staðnum. Hefur grjótið verið rifið upp og notað í veggina, og landið sléttað, svo unnt væri að nýta það. Munu skipshafnir m.a. hafa unnið í landlegum við grjótnámið. Enn má sjá þessar veggjahleðslur, sem eru þó að mestu horfnar. Jarðræktin skóp einhver grasstrá fyrir búfénað, og um miðja 20. öldina var kartöflurækt almenn í hrauninu. Jafnhliða þeirri iðju íbúanna voru lagðir götuslóðar víða á milli hraunhóla.

*

Sú kynslóð barna, sem óx úr grasi eftir miðja 20. öldina, þegar byggð húsa hafði teygst vestar og vestar í áttina að Brimhólum, upplifði hraunið sem tiltölulega ónumið ævintýraland. Þá höfðu reyndar risið trönuborgir víða, þar sem fiskur var hengdur upp og þurrkaður til útflutnings. Þessar borgir komu í stað skóga, þar sem hetjurnar í bíómyndum þessa tíma tóku sér bólfestu og endurfæddust í leikjum krakkanna. Eftir Heimaeyjargosið 1973 var nyrsti og stærsti hluti Ofanleitishrauns fylltur upp af gjósku, sem flutt var þangað af götum bæjarins. Hvarf þar stór hluti hraunsins undir nýtt hverfi gatna og húsa.

Skildu eftir svar