Öskusúlurnar í Vestmannaeyjum

Á nokkrum stöðum í Vestmannaeyjabæ má sjá sívalar súlur, sem standa álengdar við stéttar eða slóða, þar sem mannfólkið gengur um. Súlur þessir eru klæddir gjósku eða ösku úr Heimaeyjargosinu 1973 og eru til marks um hæð og magn þeirra gosefna, sem lögðust yfir bæinn þá mánuði, sem gosið stóð. Með því að taka sér stöðu við slíka öskusúlu, t.a.m. þá sem stendur við sálnahlið kirkjugarðsins, má gera sér í hugarlund, hve mikið af gosefnum hafa hlaðist upp á viðkomandi stað í gosinu. Aðrar súlur má t.d. finna á rúntinum, við húsin Ásbyrgi og Vosbúð og Ráðhús bæjarins ofan Stakkagerðistúns. Flestum kemur á óvart, hve magnið hefur verið gífurlegt og bærinn nánast við að hverfa á stórum svæðum undir fargi gjósku og ösku. Þá gefa öskusúlurnar jafnframt til kynna, hve mikið þrekvirki það var að hreinsa bæinn og fjarlægja gosefnin í milljónum tonna á næstu árum eftir gos. Stór hluti Ofanleitishrauns vestur á Heimaey varð að víkja fyrir öllum þessum vikri, þar sem stórbrotið, nánast ósnortið landslag um aldir hvarf undir ný íbúðahverfi.

 

Skildu eftir svar