Rúnturinn í Vestmannaeyjum

Rúnturinn í Eyjum var sennilega fullmótaður um miðja 20. öldina og afmarkaðist af nokkrum götum í miðbænum, sem skárust nánast hornrétt hver á aðra og mynduðu þannig ferhyrnt svæði. Norður/ suður göturnar Kirkjuvegur og Bárugata/ Hilmisgata skáru á þennan hátt vestur/ austur göturnar Vestmannabraut og Miðstræti og mynduðu þennan kjarna, sem varð að hjarta og miðpunkti iðandi bæjarlífs.

Hjarta bæjarins

Flestir bæjarbúa áttu erindi á götur rúntsins, sem tengdu saman bæjarhlutina, austur- og vesturbæinn og aðalathafnasvæðið, höfnina, með stærstu vinnustöðum eyjaskeggja innan seilingar, fiskvinnsluhúsunum Hraðfrystistöðinni, Fiskiðjunni og Ísfélaginu. Leiðin heim og heiman lá oftar en ekki í gegnum rúntinn. Þjónustustaðir af ýmsum toga stóðu við rúntinn og þrir lifðu mislengi eins og mannfólkið. Á 7. áratugnum voru þar t.a.m. vefnaðarvöruverslun, skóbúð, skóvinnustofa, málningarverslun, kaupfélag, Bjössabar, matvörubúð, sjoppur s.s. Hressingarskálinn, Búrið og Blaðaturninn, rakarastofur, kenndar við rakarana, Einar, Bjarna og Þórð, bakarí, bókabúð, sparisjóður og banki, póst- og símstöð, samkomuhús, sem var bæði kvikmynda- og danshús og apótek, allt innan seilingar fyrir bæjarbúa. Á seinni áratugum 20. aldar fram að Heimaeyjargosinu 1973 var rúnturinn oft, einkum þegar kvölda tók, að iðandi félagsmiðstöð, sérstaklega fyrir unga fólkið, sem þrammaði hringinn í hópum margsinnis, rétt- sem rangsælis, skiptist endurtekið á kveðjum við hvern hring, kíkti við í sjoppum og veifaði til ökumanna, sem voru á sama rólinu!

Gosið

Eftir að hraun rann að hluta rúntsins í gosinu, skemmdi fjölmörg hús og þrengdi að öðrum, varð rúnturinn aðeins sýnishorn að því sem hann var forðum. Þá hafa stórverslanir, þjónustumiðstöðvar og bílinn lagt hrauninu lið og leyst í auknum mæli af hendi „kaupmanninn á horninu“, og hinn stafræni heimur komið í stað hins félagslega hlutverks sem rúnturinn hafði.

Skildu eftir svar