Sjógeymirinn í Vestmannaeyjum

Sjógeymirinn við Skansinn vekur athygli, þegar komið er að virkinu, enda „hanga“ rústir hans að hálfu leyti utan í nýja hraunjaðrinum frá Heimaeyjargosinu 1973. Geymirinn er leifar sjóveitunnar í Eyjum, sem sá m.a. fiskvinnslunni fyrir hreinum sjó og Miðhúsalauginni þar skammt frá. Laugin var tekin í notkun 1934, og lærðu Eyjamenn að synda í henni næstu 40 árin þar til hún hvarf í gosinu. Þegar staðið er við tankann, verður að treysta á ímyndunaraflið með hjálp mynda til þess að sjá fyrir sér laugina og alla byggðina þar fyrir sunnan, hús, götur og ræktarleg tún, sem urðu hrauninu að bráð 1973.
Mannabeinafundir hafa vakið spurningar um fortíð þessa svæðis. Árið 1931 var komið niður á beinagrind, þegar grafið var fyrir geyminum, og var hún talin 7- 800 ára gömul. Aftur komu upp mannabein og leifar vopna á svipuðum slóðum árið 1968. Vakti sá fundur mikla athygli í bænum sem og í fjölmiðlum, og voru ýmsar tilgátur uppi um tilurð beinanna.

Skildu eftir svar