Sólheimar í Vestmannaeyjum

Sól og máni

Í Eyjum sem víðar um landið tíðkaðist sá siður forðum og að nokkru enn að gefa fólki viðurnefni til aðgreiningar frá öðrum eyjaskeggjum. Menn voru kenndir við atvik, háttalag, líkamsvöxt og lýti ýmis konar, en e.t.v. var algengast að tengja fólk við heiti húsa, þar sem viðkomandi bjó eða hafði búið. Húsið Sólheimar við Njarðarstíg var byggt árið 1907, en þar bjuggu margar fjölskyldur og einstaklingar í áranna rás þar til það var rifið síðar á öldinni eftir að Heimaeyjargosið hafði leikið það illa. Sigurbjörg Ólafsdóttir (f.1923, d.2020) átti heima á Sólheimum fyrri hluta 20. aldar, þekkt kaupkona í Vestmannaeyjum, og var jafnan kennd við húsið, sem stytt var í „sól“ og Sigurbjörg kölluð Sigga sól. Viðurnefnið reyndist smitandi og var sett í samhengi við himintunglin, þegar eiginmaður Sigurbjargar, Magnús Kristjánsson (f. 1929, d. 2017), sem ávallt stóð við hlið konu sinnar í verslun þeirra hjóna, fékk viðurnefnið Maggi máni. Svo vel virtust þessar nafngiftir falla börnum þeirra Siggu sólar og Magga mána í geð, að þau hafa ratað sem sérnöfn á afkomendur þeirra, sem skarta viðurnöfnum ömmu sinnar og afa: Sól og Máni!

Götulistamaðurinn Hjörsi

Kynlegir kvistir í litrófi mannlífsins voru til í Eyjum sem annarsstaðar. Einn þeirra var Hjörtþór Hjörtþórsson, en hann bjó einmitt um tíma á Sólheimum við Njarðarstíg á fyrri hluta 20. aldar. Hjörtþór var jafnan nefndur Hjörsi og setti svip sinn á bæjarlífið með torkennilegu hátterni sínu og útliti. Hann gat t.a.m. snýtt sér með meiri tilþrifum en aðrir menn svo undir tók í bænum! Þótti þetta hin mesta skemmtan, og hafði Hjörsi jafnvel af þessu atvinnu sem skemmtikraftur á torgum úti og tók gjald fyrir sem götulistamenn nú á dögum! Mun hann eitt sinn hafa boðið borgarbúum í miðborg Reykjavíkur þessa þjónustu og þanið nef sitt með miklum tilþrifum! Var hann þá beðinn af lögreglu um að láta af hegðan sinni, þegar stefndi í öngþveiti hjá vegfarendum, sem runnu á hljóðin! Mun Íslendingi sjaldan hafa verið fyrr né síðar bannað að snýta sér í höfuðborginni! Ási í Bæ hefur gert Hjörsa ógleymanleg skil í bók sinni, Skáldað í skörðin.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar