Stakkagerðistún í Vestmannaeyjum

Davíð Steingímsson, Heimaslóð.

Túnskiki í hjarta bæjarins

Stakkagerðistún er aldagamall túnskiki, miðsvæðis í bænum, umlukinn ýmsum stofnunum og híbýlum bæjarbúa. Túnið ber nafn bæja, Stakkagerðisbæja, sem þarna stóðu um aldir, þar sem láglendi á Heimaey og hálendi mættust. Náði það lengra til norðurs í átt að höfninni, þar sem nú er Vestmannabraut, en teygði sig svo þangað sem brattara var undir fót til suðurs að núverandi Hvítingavegi. Fyrstu Stakkagerðisbæirnir hafa verið úr torfi og grjóti svo sem annarsstaðar á landinu og íbúarnir hafa ræktað landskika umhverfis þá innan um úfið hraunið, sem einkenndi mjög landslag á Heimaey. Þannig hefur myndast graslendi til beitar fyrir kvikfénað og nautgripi sem fólkið lifði á ásamt fiski úr sjónum og fugli úr björgum. Líf Stakkagerðisfólksins sem annarra eyjabúa náði sjaldnast þeim hæðum, að frásagnir af því geymdust. 

Tyrkjarán

Árið 1627 komust Stakkagerðisbæir skyndilega á spjöld sögunnar svo um munaði. Tvær konur, húsfreyjur á tveimur bæjanna, urðu söguefni ásamt öðrum eyjaskeggjum í bók, sem rituð var skömmu síðar. Bókin geymir lýsingar af þeirri mestu ógn, sem hið friðsæla samfélag á Heimaey hafði nokkru sinni orðið fyrir. Hundruð illvirkja, sem sigldu um höfin undir fánum Tyrkjasoldáns, réðust vopnum búnir á land á Heimaey, rændu, tóku til fanga og drápu heimamenn og skildu við samfélagið í flakandi sárum. Á meðal þeirra sem fluttir voru út í skip þeirra, sem síðan sigldu til Algeirsborgar í Alsír, voru húsfreyjurnar frá Stakkagerðisbæjum, en þeirra biðu ólík örlög sem orðið hafa skáldum og skríbentum innblástur til greina- og bókaskrifa og gert þær að sígildu umhugsunar- og umfjöllunarefni.

Guðríður Símonardóttir

Guðríður Símonardóttir (1598-1682) bjó í Stakkagerði ásamt eiginmanni sínum í Tyrkjaráninu 1627. Hún komst ekki undan ræningjunum, var flutt á skipi til Norður- Afríku ásamt syni og á þriðja hundrað annarra Eyjamanna og seld í þrældóm. Guðríður, sem síðar var nefnd Tyrkja-Gudda, losnaði úr ánauð eftir 9 ár og fór þá til Kaupmannahafnar ásamt fleiri Íslendingum. Þar kynntist hún guðfræðinemanum og verðandi stórsálmaskáldi, Hallgrími Péturssyni, varð barnsmóðir hans, eiginkona og loks prestfrú þau ár sem hann þjónaði sem prestur. Þótt Guðríður væri laus úr fjötrum í Afríku hélt hún áfram að ganga grýttar götur í lífinu við hlið Hallgríms bónda síns, sem þraukaði oft þjakaður í fátækt og umkomuleysi m.a. á Suðurnesjum og síðar í Hvalfirði. Þau hjón misstu dóttur sína unga, bær þeirra á Hvalfjarðarströnd brann og Hallgrímur þjáðist af holdsveiki á efri árum. Guðríður lést 18. des. 1682. 

Örlög Guðríðar Símonardóttur hafa verið Íslendingum hugleikin og viðurnafn hennar, Tyrkja-Gudda, þeim tamt um tungu. Guðríður kemur víða fyrir í rituðum heimildum um Tyrkjaránið en er sjaldnast sú  þungamiðja og aðalsögupersóna sem hún er í bók Steinunnar Jóhannesdóttur frá árinu 2001 sem ber nafn Guðríðar. Þar lýsir Steinunn m.a. árum Guðríðar í Barbaríinu af miklu innsæi sem og ævintýralegri ferð hennar úr ánauðinni í hópi með 37 öðrum löndum sínum frá Afríku yfir Miðjarðarhafið og alla leið til Danmerkur að miklu leyti fótgangandi. Bók Steinunnar veitir einstaka innsýn í ólíka tíma, menningarheima, þjáningar, þrautir og þrældóm Guðríðar, sem m.a. varð að sjá eftir syni sínum í hinsta sinn, þegar hún lagði af stað í ferðina löngu til heimalandsins.

Anna Jasparsdóttir

Örlög grannkonu Guðríðar af Stakkagerðistúni, Önnu Jasparsdóttur, urðu ekki síður sígilt íhugunarefni en hún var einnig numin á brott frá Vestmannaeyjum í Tyrkjaráninu 1627. Önnu beið í Afríku líf lystisemda og munaðar því hana keypti tyrkneskur aðalsmaður og gerði að eiginkonu sinni. Að sögn landa hennar í Algeirsborg naut hún stöðu hefðarmeyjar með þjónustufólk sér til snúninga og var gjarnan nefnd af þeim „Drottningin frá Algeirsborg„. Anna Jasparsdóttir snéri aldrei aftur til heimalands síns og enginn veit hvernig ævi hennar varð né afkomenda hennar þar ytra. Þyrnum stráð lífshlaup fyrrverandi nágrannakonu hennar frá Stakkagerði hafa markað dýpri spor í söguna.

Láki í kofanum

Láki í kofanum var af allt öðru sauðahúsi en húsfreyjurnar frá Stakkagerði, en hann hélt sig löngu síðar á túninu við bæina. Um 1880 mun piltur hafa hrapað úr Blátindi og fannst líkið illa farið í Kaplagjótu. Var það grafið í kirkjugarðinum á Ofanleiti.  Drengurinn gekk aftur og var jafnan nefndur Láki í kofanum þar eð hann sást oft við kindakofa húsbónda síns nyrst í Stakkagerðistúni. Að gömlum og þjóðlegum sið var Láki jafnan með hausinn í annarri hendi og gaf sig ekki á tal við fólk, enda raddböndin ekki í sambandi við önnur talfæri líkamans.  Engum gerði hann mein, enda óáreitinn og óaðlaðandi!  Meðal þeirra sem sáu Láka var Árni í Stakkagerði, mætur borgari og þekkur fyrir sannsögli og Guðmundur, sonur Ögmundar í Auraseli, hins þekkta galdramanns og langalangafa hálfbræðranna Ása í Bæ og Kristins R. Ólafssonar.  Ekkert hefur sést né spurst til Láka í kofanum síðan ofangreindir sjónarvottar voru uppi. Kofinn löngu horfinn sem allur nyrsti hluti Stakkagerðistúns, þar sem húsaraðir standa við núverandi Hilmisgötu og Vestmannabraut.

Samkomustaður

Engin merki eru á Stakkagerðistúni frá tímum Tyrkjaránsins og óljóst hvar í túninu bæir Guðríðar Símonardóttur og Önnu Jasparsdóttur hafa staðið. Sama á við um kofa Láka en túnið hefur breyst mjög að stærð og útliti og gegnir nú allt öðru hlutverki en áður. Lítil stytta í austanverðum jaðri þess af Guðríði minnir þó á hana, búsetu hennar í túninu og örlög. Ekkert annað minnir þarna á fortíðina. Landbúnaðarsamfélagið í Eyjum er liðið undir lok, þegar túnið þjónaði bændum og grasbítum þeirra, en seinasti Stakkagerðisbærinn var rifinn um miðja seinustu öld.

Stakkagerðistún nútímans er skemmtigarður og útivistarsvæði og hefur í áratugi verið einn af aðalsamkomustöðum eyjaskeggja s.s. á sjómannadeginum og þjóðhátíðardeginum 17. júní. Ýmsar opinberar byggingar og stofnanir hafa fest rætur við túnið eða í næsta nágrenni eftir því sem kauptún breyttist í bæ. Þar má nefna sjúkrahús, sem nú er Ráðhús Vestmannaeyja, safnahús, sem geymir söfn með þjóðlegum gripum, skjölum, myndefni og bókum. Lögreglustöð bæjarins stóð lengi við túnið og eitt aðal samkomuhús bæjarbúa í áratugi er þar enn, Alþýðuhúsið. Þá hefur læknabústaður með læknastofum leitað skjóls við túnið fyrr á árum sem og listaskólar, félagasamtök og átthagafélög eins og Akóges.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is.

Skildu eftir svar