Steinar undir Eyjafjöllum

Þar sem nú er grjótskriða, nánast frá fjallsbrún niður að þjóðveginum, stóðu Steinabæirnir undir Austur- Eyjafjöllum. Bæirnir áttu sér langa sögu aur- og skriðufalla í nábýli við fjöllin og Steinalækinn, sem gat vaxið í leysingum og orðið sem beljandi fljót. Átta eða níu bæir voru þarna á 19. öld, þegar best lét, en fækkaði smám saman vegna grjóthruns, aur- og vatnsskemmda. Gamall kirkjugarður stóð neðan við bæina og kirkja, sem er löngu horfin, en einn legsteinn er enn sýnilegur í garðinum og blasir við skammt frá þjóðveginum. Snemma á 20. öldinni voru bæirnir þrír á Steinum, en á einni nóttu lagðist byggð af, og aldrei var búið þarna aftur. Á aðfararnótt 2. dags jóla 1926 hljóp mikil aur- og grjótskriða fram úr fjallinu, hvolfdist yfir bæina og færði í kaf. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst heimilsfólkinu að komast út á þekjurnar, þar sem því var bjargað. Örfá tóftabrot má sjá, þegar gengið er um svæðið, annars eru nánast öll merki um byggð þarna um aldir horfin.

 

Skildu eftir svar