Stjórnarráðshúsið

Málverk Jóns Helgasonar biskups af Reykjavík 1787

Stjórnarráðshúsið var byggt sem fangelsi á árunum 1764-1770 en húsið var eitt af fyrstu steinhúsunum sem dönsk stjórnvöld létu reisa hér á landi á árunum 1753-1796 sem þátt í endurreisn landsins. Húsið var rekið sem fangelsi til ársins 1816 og var þá ýmist kallað Tugthúsið eða Múrinn. Þann tíma sem tugthúsið var starfrækt fékk það aldrei þau framlög sem þurfti til rekstrarins og ein afleiðingin af því var sú að á hverju ári dóu margir fangar af illum aðbúnaði, sjúkdómum og ófeiti (hungri). Einn þekktasti fanginn sem hér var vistaður á meðan beðið var eftir úrskurði konungs var Steinunn Sveinsdóttir (1767-1805) frá Sjöundá. Sjá einnig færslurnar Sjöundá og Steinkudys.

Ódýrt vinnuafl óskast

Í bænarskrá til konungs árið 1753 um styrk til Innréttinganna fór Skúli Magnússon fram á að byggt yrði betrunarhús sem tekið gæti við ungum og hraustum umrenningum og beiningamönnum sem „rynnu um landið í hópum“. Taldi hann að kenna mætti þeim kristindóm og venja þá  við vinnu, einkum ullarvinnu. Til að standa straum af kostnaði við betrunarhúsið lagði Skúli til að konungur legði betrunarhúsinu til Þingeyrarklaustur (sjá bók Björn Þórðarsonar, Refsivist á Íslandi 1761-1925).

Úr fangelsi í stjórnarráðshús

Árið 1819 var húsið tekið undir bústað Stiftamtmanns og var þá ýmist kallað Stiftamtmannshús eða Kóngsgarður. Eftir 1873 varð húsið bústaður Landshöfðingjans og gekk þá undir nafninu Landshöfðingjahús. Við stofnun Heimastjórnar   árið 1904 varð húsið aðsetur Stjórnarráðs Íslands og síðan þá hefur það gengið undir nafninu Stjórnarráðshúsið eða bara Stjórnarráðið. Fram undir 1939 voru öll ráðuneytin til húsa hér en nú er aðeins forsætisráðuneytið eftir. Skrifstofa forseta Íslands var hér til húsa á árunum 1973-1996.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar