Sýslumannskór í Vestmannaeyjum
Sýslumannskór er hellisskúti austan megin í Hánni, kenndur við M.M.L. Agaard, danskan sýslumann Eyjamanna, á árunum 1872- 1891. Aagaard sýslumaður var vel látinn og aflaði sér vinsælda og virðingar ásamt eiginkonu sinni og börnum þá u.þ.b. tvo áratugi, er þau áttu heima í Eyjum. Sýslumannshjónin bjuggu á ýmsum stöðum í bænum, lengi í Uppsölum, en húsið stendur enn að nafninu til milli Vestmannabrautar og Faxastígs, reyndar fleiri en eitt með því nafni. Dönsku hjónunum fylgdi ferskur andblær, danskir siðir og menning, sem Eyjamönnum var framandi, enda þeir á þeim tíma fornir í hugsun og lifnaðarháttum. Bréf og dagbækur frá Agaard- hjónunum gefa innsýn í líf þeirra á einangraðri eyju í norðurhöfum, þar sem fámenni, fátækt og fákunnátta var meiri en þau höfðu áður kynnst. Sýslumannshjónin munu m.a. hafa flutt inn fyrsta jólatréð til Eyja 1878 til þess að gleðja börn sín og buðu öðrum börnum svo til jólatrésfagnaðar að Uppsölum. Sýslumannskórinn minnir á veru hjónanna í Eyjum, en fjölskyldan mun hafa gengið um Heimaey á góðviðrisdögum, upp brekkuna austan í Hánni og notið þaðan útsýnis yfir byggðina í bænum, höfnina og náttúruna: Norðurklettana, Helgafell, úteyjarnar í austri, Elliðaey og Bjarnarey og sveitir Suðurlands í norðri.
Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is