Breiðabólsstaður í Fljótshlíð
Breiðabólsstaður er bær og kirkjustaður í Fljótshlíð. Hér bjó Ormur Jónsson sem jafnan var kenndur var við staðinn og kallaður Ormur Breiðbælingur. Ormur var sonur Jóns Loftssonar í Odda. Eftir lát Orms bjó Hallveig dóttir hans hér með manni sínum Birni Þorvaldssyni af ætt Haukdæla, hálfbróður Gissurar Þorvaldssonar. Þau áttu synina Klæng, fóstbróður Sturlu Sighvatssonar og Orm goðorðsmann.
Hallveig og Snorri Sturluson
Oddverjar drápu Björn árið 1221 og varð þá Hallveig eins ríkasta kona landsins. Hún tók saman við Snorra Sturluson í Reykholti og bjó með honum til dauðadags. Eftir lát hennar deildu synir hennar við Snorra um móðurarfinn og tók Klængur þátt í aðförinni að Snorra árið 1241. Órækja, sonur Snorra og frillu hans Þuríðar Hallsdóttur, drap Klæng árið 1241 í hefndarskyni fyrir dráp Snorra. Þuríður systir Hallveigar var gift Tuma yngri Sighvatssyni sem drepinn var í Örlygsstaðabardaga 1238.
Prestsetur
Hér hafa margir merkir prestar og biskupsefni búið í gegnum tíðina. Jón Ögmundsson (1052-1121) biskup á Hólum var frá Breiðabólsstað og hér bjó einnig Ögmundur Pálsson, síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti. Í upphafi 18. aldar bjó hér séra Högni Sigurðsson (1693-1770) sem eignaðist átta syni sem allir urðu prestar. Á 19. öld bjó Tómas Sæmundsson prestur og Fjölnismaður hér og í kirkjugarðinum er minnisvarði um Tómas sem Fjölnismenn létu reisa.