Þingeyrar í Húnaþingi
Þingeyrar eru bær og kirkjustaður í Húnaþingi milli Hóps og Húnavatns. Á Þingeyrum var þingstaður til forna og má þar enn sjá garð (hleðslu) sem ber nafnið Lögrétta. Ekki hefur þó verið úr því skorið með óyggjandi hætti að hér sé um að ræða menjar þingstaðarins.
Munkaklaustur
Munkaklaustur var á Þingeyrum frá 1133 fram til 1550. Klaustrið var mjög auðugt og var lengi eitt helsta klaustur landsins. Hér voru stunduð umfangsmikil fræði- og ritstörf og talið er að einhverjar Íslendingasagnanna hafi verið skrifaðar í klaustrinu. Sumarið 2013 hófst vinna við að skrá minjar um klaustrin fjórtán sem rekin voru á Íslandi á kaþólskum tíma (1000-1550) og árið 2015 koma út skýrsla um Þingeyrarklaustur. Saga klaustursins er ítarlega rakin í bók Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings, Leitin að klausturunum, sem kom út 2017. Sumarið 2018 hóf Steinunn ítarlega rannsókn á staðnum.
Kirkjan
Í núverandi kirkju sem var reist á tímabilinu 1864-1877 er að finna marga merka hluti svo sem altaristöflu frá 15 öld og predikunarstól og skírnarfont frá því um 1700.
Þekktir ábúendur
Torfi Bjarnason, kenndur við Ólafsdal í Dalasýslu, var vinnumaður í nokkur ár á Þingeyrum. Á Þingeyrum fæddist Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands og Jón Eyþórsson, veðurfræðingur. Afi Björns og nafni, Björn Ólsen, var klausturhaldari á Þingeyrum.