Hraun í Vestmannaeyjum

Gúmbjörgunarbáturinn

Kjartan Ólafsson útgerðarmaður, bjó í Hrauni við Landagötu 4 um miðjan 20. áratuginn en húsið hvarf undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973. Stóð það örskammt frá hraunjaðrinum austast við enda Vestmannabrautar, þegar horft er „inn í hraunið, hinum megin við götuna“, og staðið nálægt, þar sem börn eru á mynd. Hraun er á myndinni miðri.  Kjartan Ólafsson var fyrsti útgerðarmaðurinn í Eyjum og jafnframt á landinu öllu, sem keypti gúmbjörgunarbát í mótorbát sinn, Veigu VE 291, í upphafi vertíðar 1951.  Þessi kaup Kjartans áttu nokkurra ára aðdraganda, Sighvatur Bjarnason, skipstjóri á Erlingi ll VE 325, hafði hreyft við þessu máli nokkrum árum fyrr og keypti gumbjörgunarbát í sinn bát skömmu á eftir Kjartani.  Fleiri tengdust hugmyndinni en Kjartan fylgdi málinu eftir m.a. við Skipaskoðun ríkisins sem var treg til þess að veita leyfi fyrir björgunarbáti sem gæti sprungið en það gerðu hinir hefðbundnu trébátar ekki!

Þrjú sjóslys

Ekkert reyndi á þessa nýjung í fyrrnefndum Eyjabátum fyrr en rúmu ári síðar í lok vertíðar 12. apríl 1952.  Bátur Kjartans, undir skipstjórn Elíasar Gunnlaugssonar, var þá að leggja net suðvestur af Einidrangi þegar hann fékk á sig brotsjó.  Brotnaði borðstokkurinn á löngum kafla, stýrishúsið fylltist af sjó sem streymdi einnig í lestina og mann tók út og hvarf hann í hafið.  Nú reyndi á hvort hinn nýi gúmbjörgunarbátur stæðist þessa frumraun.  Bátsverjum tókst ekki að koma lofti í hann með kolsýruflösku svo nota varð handdælu sem tók 15-20 mínútur.  Komust allir í bátinn en annar bátsverji hvarf í hafið áður en Veiga sökk.  Vélbáturinn Frigg bjargaði svo þeim sex sem komust í gúmbátinn u.þ.b. 40 mínútum síðar og urðu bátsverjar á Veigu þar með fyrstu sjómennirnir á Íslandi sem björguðust úr sjávarháska í gúmbjörgunarbáti.

Tæpu ári seinna, 23. febrúar 1953, tókst fjórum bátsverjum af níu að komast í gúmbjörgunarbát, þegar vélbáturinn Guðrún VE 163  fórst en gúmbáturinn hafði skömmu áður verið tekinn um borð.  Rak bátinn upp í Landeyjasand eftir að hafa velkst um í brimgarðinum og komust allir bátsverjar heilir frá þessari þrekraun.  Töldu þeir að gúmbátur hefði skipt sköpum að þeir björguðust þar sem árabátur eða tréfleki hefði ekki skilað þeim lifandi eftir fjögurra tíma átök við öldurót hafsins. Til er eftirminnileg og einstök, hljóðrituð frásögn Sveinbjörns Hjálmarssonar eins bátsverja á Guðrúnu af slysinu. 

Enn fórst bátur frá Eyjum, 11. apríl 1954, Glaður VE 270, þar sem gúmbjörgunarbátur var um borð og var bátsverjum bjargað eftir sólarhrings hrakningar. 

Á nokkrum árum hafði gúmbjörgunarbáturinn sannað gildi sitt sem björgunartæki um borð í íslenskum bátum og var lögbundinn frá Alþingi árið 1957.

Heimur í fingurbjörg

Einhverjum árum eftir búsetu Kjartans Ólafssonar að Hrauni settist þar að Magnús Jóhannsson sem stóð í annars konar útgerð en Kjartan.  Magnús kenndi sig ávallt við fæðingarstað sinn, Hafnarnes, austur á Fáskrúðsfirði,  Hann var fæddur 28. desember 1921, flutti til Eyja á 5. áratug seinustu aldar og stundaði alla tíð sjómennsku og almenn verkamannastörf. Magnús var þó aldrei kenndur við slík störf í Eyjum, heldur áhugamál sitt og þá ástríðu að setjast við skriftir í lok vinnudags. Slík iðja skar sig svo sannarlega frá því, sem fjöldinn aðhafðist og fékk Magnús því viðurnefnið „skáld“, sem ávallt var hnýtt aftan við gælunafn hans: „Maggi skáld“. Hann gaf út smásagnasafnið Vegamót árið 1955 og skáldsöguna Heim í fingurbjörg 1966, sem vakti athygli á honum sem rithöfundi. Í kjölfarið fylgdu fleiri skáldsögur, smásögur og ljóð í bókum, blöðum og tímaritum. Magnús lést 26. júní 1987.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar