Kristnes í Eyjafirði

Mats Wibe Lund
Landnámsjörð Helga margra

Kristnes var landnámsjörð Helga magra í Eyjafirði. Helgi var kristinn og helgaði Kristni bæ sinn. Faðir hans var Eyvindur austmaður Bjarnason frá Gautlandi. Helgi fæddist á Írland en var sendur í fóstur til Suðureyja þar sem hann var sveltur svo illa að þegar foreldrar hans komu til að sækja hann tveimur árum síðar þekktu þau hann ekki. Eftir það fékk hann viðurnefnið magri.

Heilsuhæli

Árið 1927 var hér reist heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Húsið teiknaði Guðjón Samúelsson og fyrsti yfirlæknir hælisins var Jónas Rafnar. Ættarnafnið Rafnar má rekja til afkomenda sr. Jónasar Jónasonar (1856-1918) frá Hrafnagili, höfundar bókarinnar Íslenskir þjóðhættir, og Þórunnar Stefánsdóttur Ottesen (1858-1933). Hrafnagil er bær rétt sunnan við Kristnes. Í dag rekur Sjúkrahúsið á Akureyri hér öldrunar- og endurhæfingardeild.

Ástarkveðja  tónskáldsins

Saga berklasjúklings á Kristneshælinu tengist tilurð einnar fegurstu tónsmíðar íslensks tónskálds. Árið 1934 lést á Kristneshæli ung eiginkona Karls Ó. Runólfssonar (1900-1970) tónskálds, Margrét Kristjana Sigurðardóttir (1910-1934). Sagan segir að þegar hún lá á dánarbeðinu hafi Karl verið á leið til hennar en tafist vegna slæms veðurs. Hún bað þá hagmæltan mann sem lá á deildinni með henni, Valdimar Hólm Hallstað, að semja fyrir sig ljóð til eiginmanns síns ef ske kynni að hún myndi ekki lifa það að sjá hann aftur. Þegar Karl náði norður var hún látin en hans beið bréf frá konu sinni með ljóði Valdimars með upphafsorðunum: „Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur.“ Við ljóðið samdi hann hið gullfallega lag Í fjarlægð. Hvort hlutirnir gerðust nákvæmlega svona verður ósagt látið en þetta er óneitanlega hjartnæm saga.

 

Skildu eftir svar