Miklibær í Skagafirði
Miklibær er sögufrægur bær og kirkjustaður í Blönduhlíð í Skagafirði. Bærinn kemur við sögu í aðdraganda og eftirmála Örlygsstaðabardaga og þar lét Kolbeinn ungi vega Kálf Guttormsson og son hans Guttorm fyrir það eitt að Kálfur var vinur Sighvats Sturlusonar.
Hvarf séra Odds frá Miklabæ 1786
Þekkt er þjóðsagan um hvarf séra Odds frá Miklabæ en samkvæmt sögunni skilaði séra Oddur sér ekki heim eftir messu á Silfrastöðum þann 1. október 1786. Sagan segir að ung ráðskona, Sólvegi að nafni, hafi framið sjálfsmorð eftir að séra Oddur hafði hafnað henni og kvænst annarri konu. Sólveig þessi gekk aftur og umræddan dag dró hún Odd og hest hans niður í gröf sína. Lag Mannakorns, Garún Garún, fjallar um hvarf séra Odds frá Miklabæ.
Bertel Thorvaldsen (1770-1844)
Hinn heimsþekkti dansk-íslenski myndhöggvari, Bertel Thorvaldsen (1770-1844), átti ættir að rekja til Miklabæjar en hann var sonur Gottskálks Þorvaldssonar sem fæddist á Reynistað þegar faðir hans, Þorvaldur Gottskálkssonar, starfaði þar sem djákni. Nokkrum árum síðar var Þorvaldur vígður prestur að Miklabæ og þar ólst Gottskálk faðir Bertels upp. Aðeins 16 ára gamall, árið 1757, fór Gottskálk ásamt systkinum sínum til Kaupmannahafnar til að nema handverk og komst Gottskálk í læri hjá dönskum myndhöggvara. Þar kynnist hann konu sinni Karen Degnes frá Jótlandi og þar fæddist Bertel árið 1770 að því að talið er en fæðingarár hans er eitthvað á reiki.
Kirkjan
Í kirkjugarðinum í Miklabæ er leiði Bólu-Hjálmars Jónssonar (1796-1875), skálds og bónda, en hann var kenndur við bæinn Bólu í Blönduhlíð, hjáleigu frá Uppsölum.