Staðarstaður í Staðarsveit

Mynd bokmenntaborgin.is

Staðarstaður er bær og prestssetur í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Staðarstaður þótti löngum eitt besta prestakall landsins og hér bjuggu til forna og fram á okkar tíma landsþekktir einstaklingar, bæði lærðir og leiknir. Á 12. öld bjó hér Ari fróði Þorgilsson sem talinn er einn aðalhöfundur Íslendingabókar og Landnámu. Hér bjuggu einnig sonarsonur Ara, Ari Þorgilsson sterki og tengdasonur hans og stjúpsonur, Þórður Sturluson, bróðir Snorra Sturlusonar og faðir Sturlu Þórðarsonar sagnaritara.

Franskireitur

Í kirkjugarðinum á Staðarstað er franskireitur þar sem um 40 franskir sjómenn eru grafnir en þeir drukknuðu þegar sex franskar skútur fórust úti fyrir Staðarsveit þann 28. mars 1870. Þennan dag skall á mikið ofviðri á suðvesturlandi sem olli fjölmögum skipssköðum á Faxaflóa. Talið er að þúsundir franskra sjómanna hafi farist hér við land á þeim þremur öldum sem Frakkar stunduðu veiðar á Íslandsmiðum.

Listamenn frá Staðarstað

Á Staðarstað fæddust listamennirnir Jóhann Jónsson (1896-1932) skáld og höfundur ljóðsins Söknuður og Ragnar Kjartansson (1923-1988) myndhöggvari, faðir Kjartans Ragnarssonar leikara og afi Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns.

Skildu eftir svar