Bessastaðir á Álftanesi

Bessastaðir eru fornt höfðingjasetur á Álftanesi sem spilað hefur stórt hlutverk í sögu þjóðarinnar. Voru Bessastaðir fyrsta jörðin til að komast í konungseign eftir víg Snorra Sturlusonar árið 1241. Ekki er vitað með vissu við hvaða Bessa Bessastaðir eru kenndir en þeirri kenningu hefur verið fleygt fram að Snorri Sturluson hafi nefnt staðinn eftir tengdaföður sínum, Bersa Vermundarsyni hinum auðga á Borg. Hér hafa miklir höfðingar og embættismenn setið – hirðstjórar konungs, stiftamtmenn og landfógetar. Meðal þekktra einstaklinga sem bjuggu á Bessastöðum í seinni tíð má nefna skáldið og þingmanninn Grím Thomsen (1820-1896) og ritstjórann og alþingismanninn Skúla Thoroddsen (1859-1916). Grímur bjó á Bessastöðum í tæpa þrjá áratugi en Skúli í 10 ár.

Bústaður æðstu embættismanna og þjóðhöfðingja

Hér reis eitt af fyrstu steinhúsunum á Íslandi (Bessastaðastofa) að frumkvæði Skúla Magnússonar fógeta. Húsið var eitt af mörgum steinhúsum sem Danir byggðu hér á landi á seinni hluta 18. aldar (1761-1766) en húsið á Bessastöðum var reist sem embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns, tengdaföðurs Ólafs Stefánssonar sem var ættfaðir Stefánsunga (Stephensen-ættarinnar). Sigurður Jónsson forstjóri gaf íslenska rikinu Bessasstaði árið 1941 og hér hafa allir forsetar landsins setið síðan.

Fjölbreytt starfsemi

Margvísleg starfsemi hefur verið rekin á Bessastöðum í gegnum tiðina. Auk búskapar og kirkjuhalds má t.d. nefna prentsmiðjurekstur og skólahald. Þegar húsnæði Hólavallaskóla í Reykjavík var dæmt ónothæft til skólahalds árið 1804 var skólinn fluttur til Bessastaða og starfaði hann þar frá árinu 1805 til ársins 1846 og kallaðist þá Bessastaðaskóli. Síðasta árið sem skólinn starfaði á Bessastöðum stunduðu 50 piltar nám við skólann. Þá er talið að svarthol konungs hafi verið á Bessastöðum, líka þekkt sem Þrælakistan. Halldór Laxness lætur Jón Hreggviðsson frá Rein dúsa í þrælakistunni á Bessastöðum meðan hann bíður örlaga sinna.

Kirkjan

Núverandi kirkja á Bessastöðum var vígð árið 1796 en þá hafði hún verið í byggingu síðan 1773. Kirkjubyggingunni var þó ekki endanlega lokið fyrr en árið 1823. Kirkjan, eins og Bessastaðastofa, var meðal fyrstu steinhúsanna á Íslandi og var byggingarefnið fengið úr Gálgahrauni hér skammt frá.

Fornleifarannsóknir

Á árunum 1987-1996 fóru fram umfangsmiklar fornleifarannsóknir á Bessastöðum í tengslum við viðgerðir og endurbætur á Bessastaðastofu. Rannsóknirnar leiddu í ljós að saga Bessastaða nær aftur til landnámsaldar og að jafnaði hafi verið búið hér stórtbúi. Fundist hafa á annað þúsund gripa, þ.á m fallbyssa sem talin er vera frá 15. öld. Fallbyssan er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Skildu eftir svar