Grund í Eyjafirði

Grund er fornt höfuðból og kirkjustaður í Eyjafirði skammt sunnan við Hrafnagil, um 20 km frá Akureyri. Hér stendur stærsta og glæsilegasta kirkja landsins sem byggð er af einstaklingi.

Sturlungaöld

Þegar Sighvatur Sturluson, sonur Hvamm-Sturlu í Dölum, varð héraðsforingi Eyfirðinga og Þingeyinga árið 1215 settist hann og eiginkona hans Halldóra Tumadóttir, systir þeirra Kolbeins og Arnórs Tumasona, að á Grund. Eftir fall Sighvats og sona hans í Örlygsstaðabardaga 1238 flæmdi Kolbeinn ungi, sonur Arnórs, frænku sína burt af jörðinni. Arnbjörg dóttir Arnórs Tumasonar giftist Órækju syni Snorra Sturlusonar. Árið 1246 kallaði Þórður Kakali Sighvatsson bændur sína til fundar á Grund og tilkynnti þeim um þau áform hans að ráðast inn í Skagafjörð og kenna Ásbyrningum lexíu. Þau áform endurðu í Haugsnesbardaga þar sem foringi Ásbyrninga, Brandur Kolbeinsson féll og veldi Ásbyrninga leið undir lok.

Biskupsdóttirin á Grund

Á 16. öld bjó hér Ísleifur Sigurðarson sýslumaður. Hann var kvæntur Þórunni Jónsdóttir  (1511-1593), dóttur Jóns Arasonar  (1484-1550) biskups. Ísleifur var eiginmaður Þórunnar númer tvö en fyrsti eiginmaður hennar var Hrafn Brandsson og bjuggu þau í Glaumbæ í Skagafirði.

Kristjana og Pétur Havsteen

Á Grund kynntist Kristjana Gunnarsdóttir (1836-1927), systir Tryggva Gunnarssonar (1835-1917) alþingismanns og bankastjóra, eiginmanni sínum Pétri Havsteen (1812-1875) amtmanni á Möðruvöllum. Sonur þeirra var Hannes Þ. Hafstein (1861-1922), skáld og fyrsti ráðherra Íslands.

Kirkjan á Grund

Athafnamaðurinn Magnús Sigurðsson (1846-1925) byggði núverandi kirkju á Grund á eigin kostnað 1904-05. Kirkjan er án efa stærsta og glæsilegasta kirkja sem einstaklingur hefur reist hér á landi. Magnús og kona hans, Guðrún Þórey Jónsdóttir frá Gilsbakka, stofnuðu einnig skóla hér árið 1889 og árið 1906 stofnuðu þau hér einskonar lýðháskóla til minningar um börn þeirra sem dóu ung.

Listamenn frá Grund

Á Grund fæddust Árni Kristjánsson (1906-2003) píanóleikari og séra Valdimar Briem (1848-1930) sálmaskáld. Klemens Jónsson (1862-1930), sonur Jóns Borgfirðings, sýslumaður, ráðherra og rithöfundur, ritaði sögu staðarins í bókinni Grund í Eyjafirði, sem kom út árið 1927.

Skildu eftir svar