Faxasker í Vestmannaeyjum

Faxasker er norður af Ystakletti, og á því er lítið björgunarskýli. 7. janúar 1950 fórst vélbáturinn Helgi VE 333 í vondu veðri við skerið með allri áhöfn og farþegum, alls 10 manns. Helgi VE átti örstutt eftir í höfn eftir siglingu frá Reykjavík, þegar hann fékk brot á sig í sundinu milli Faxaskers og Ystakletts og lenti á skerinu Skelli, þar sem hann brotnaði á skammri stundu í spón. Vitni urðu að slysinu frá öðrum bátum, en einnig frá Kirkjubæjum austur á Heimaey þaðan sem sást á slysstað. Endalok bátsins voru átakanlegri en ella fyrir þá sök, að tveir menn komust upp í Faxasker, og var ekki unnt að komast til þeirra fyrr en tveim dögum síðar, 9. janúar, til þess að finna þá liðin lík. Vinnslustöð Vestmannaeyja brann um nóttina eftir að Helgi sökk, sem gerði atburði dagsins enn skelfilegri í hugum Eyjamanna, sem leituðu stöðugt til mannanna á skerinu. Faxaskerið blasir við frá nýja hrauninu úr Eldfelli, skammt frá hafnarmynninu, en sést einnig frá Eiðinu. Björgunarskýli var byggt í kjölfar þeirra atburða, sem á skerinu urðu.

 

Skildu eftir svar