Minnisvarði um Helliseyjarslysið

Í stórgrýttri fjörunni skammt frá minnisvarða um Helliseyjarslysið kom Guðlaugur Friðþórsson að landi að nóttu til, 12. mars 1984, eftir 5-6 klukkustunda sund í köldu hafinu. Fiskibáturinn Hellisey VE 503 sökk kvöldið áður þremur sjómílum í austur frá Stórhöfða, og var Guðlaugur um borð ásamt fjórum öðrum, ungum mönnum. Báturinn var á togveiðum, þegar honum hvolfdi, og komust 3 bátsverja á kjöl, þar sem þeir hýrðust kaldir og blautir, þar til báturinn sökk undan þeim. Guðlaugi tókst að synda í áttina að ljósum á Heimaey, náði landi og skjögraði síðan til byggða, þar sem honum var bjargað. Frásögn Guðlaugs af Helliseyjarslysinu vakti geysilega athygli hjá þjóðinni, enda um einstakt þrekvirki að ræða og að margra mati óskiljanlegt, hvernig honum tókst að halda lífi um hávetur í köldu Atlantshafinu. Síðar hélt Guðlaugur utan til rannsókna á því, hvernig líkami hans gæti þolað slíkt álag. Enn seinna var kvikmyndin Djúpið gerð um slysið og vakti hún upp sterkar tilfinningar og lét engan ósnortinn um dapurleg örlög bátsverja á Hellisey og ótrúlega björgun Guðlaugs Friðþórssonar.

Skildu eftir svar