Látrabjarg

Látrabjarg er langstærsta sjávarbjarg á Íslandi og vestasti oddi landsins. Það er 14 km langt og 440 metrar á hæð þar sem það er hæst. Talið er að bjargið hafi hlaðist upp í eldgosum fyrir 12-14 milljónum ára. Sterkir straumar í kringum Látrabjarg hafa löngum ógnað sjófarendum og orsakað fjölda sjóslysa.

Stærsta fuglabjarg í Evrópu

Látrabjarg er stærsta fuglabjarg í Evrópu, sumir segja í heimi. Milljónir sjófugla verpa í bjarginu og hér er m.a. stærsta álkubyggð í heimi.  Meðal fuglategunda sem verpa hér má nefna Álku, Lunda, Svartfugl, Langvíu, Stuttnefju, Ritu, Toppskarf og Fýl. Látrabjarg var mikilvægt matarkista fyrir Vestfirðinga fyrr á tímum en sig í bjargið lagði að miklu leyti af eftir 1926 eftir slys sem kostaði tvo menn lífið.

Björgunarafrekið við Látrabjarg

Eitt þekktasta sjóslysið við Látrabjarg varð þegar breski togarinn Dhoon strandaði hér í miklu óveðri þann 12. desember 1947. Björgunaraðgerðir stóðu yfir í þrjá daga við gríðarlega erfiðar aðstæður og tókst að bjarga 12 af 15 manna áhöfn skipsins. Óskar Gíslason (1901-1990) gerði kvikmyndina Björgunarafrekið við Látrabjarg um atburðinn og var myndin frumsýnd þann 9. apríl árið 1949. Í myndinni notar Óskar m.a. myndskeið sem hann tók þegar togarinn Sargon strandaði við Örlygshöfn ári síðar.

Skildu eftir svar