Prestabót í Vestmannaeyjum

http://emilpall.123.is/blog/2013/06/03/664083/

Belgíski togarinn, Pelagus, strandaði 21. janúar 1982 skammt frá Prestabót austur á Heimaey, við klettótta hamra nýja hraunsins frá gosinu 1973. Þar skorðaðist togarinn af í slæmu veðri á myrkri vetrarnóttu og hentist til og frá í brimgarðinum. Hjálparsveitir Eyjamanna komu fljótlega á staðinn og tókst að ná 6 skipverjum á land. Ekki var ljóst, hvort 3 þeirra, sem leitað höfðu skjólst undir hvalbaki togarans, væru enn á lífi, og voru björgunarmenn því sendir út í skipið. Þeim tókst að bjarga tveimur, en brotsjóir sem skullu á skipið af miklum þunga, færðu allt á kaf og hrifu þann þriðja með sér á örlagastundu. Tveir björgunarmenn reyndu að ná til hans, en hurfu í öldurótið og fórust þeir allir ásamt einum skipverja, sem drukknað hafði fyrr um nóttina. Bæjarbúar voru harmi slegnir yfir þeim fórnum, sem þarna voru færðar. Það tók úthafsbrimið aðeins stuttan tíma að rífa togarann niður í ótal hluta og gera hann að óþekkjanlegum járnhrúgum, sem enn kunna að leynast innan um kletta og björg.

Skildu eftir svar