Múli í Aðaldal

Múli er fyrrum stórbýli og kirkjustaður (kirkjan var aflögð 1890) í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Þekktir ábúendur

Meðal þekktra ábúenda í Múla voru Stjörnu-Oddi Helgason (uppi á fyrri hluta 12. aldar), 50 barna faðirinn séra Sveinbjörn Þórðarson (1406-1491), séra Einar Þorsteinsson (1633-1696) biskup, Jón Magnússon (1859-1926), forsætisráðherra, sem fæddist hér, og alþingismennirnir Jón Jónsson (1855-1912) og sonur hans Árni Jónsson  (1891-1947), einatt kenndur við Múla. Synir Árna og konu hans Ragnheiðar Jónasdóttur frá Brennu í Reykjavík voru Jónas Árnason rithöfundur og alþingismaður og útvarpsmaðurinn og tónskáldið Jón Múli Árnason.

Þjóðsaga

Í Þjóðsögum og æfintýrum Jóns Árnasonar segir frá gestkomanda í Múla sem gisti þar aðfararnótt 16. desember 1854. Um morguninn segir gesturinn: „Hér skeður eitthvað bráðum og hér er óhreinn bær því í nótt sá ég dauðsmanns svip standa fyrir framan húsdyr sr. Benidikts.“ Síðar um daginn kviknaði í bænum og stúlkubarn lést í eldinum.

Skildu eftir svar